Hamarsmenn mættu í Hólminn í Lengjubikarnum í kvöld og eldhressir að vanda. Snæfellingar tóku á móti þeim ekki síður hressir. Liðin greinilega í undirbúning eins og flestir og að leggja línurnar fyrir veturinn.
Snæfellingar leiddu eftur fyrsta hluta 23-17 en voru ansi slakir í öðrum hluta og misstu niður 11 stiga forskot á augabragði með slakri vörn og ekki verður það tekið af gestunum að baráttan var til staðar á sama tíma. Hamar jafnaði 28-28 og hleyptu lífi í leikinn. Staðan í hálfleik var 35-32 og sprækir Hamarsmenn sátu sem fastast á vagninum.
Eftir þrjá hluta hafði vagninn slitnað aftur úr og Snæfellingar voru komnir á skrið, leiddu 70-44 og gáfu ekkert eftir. Sherrod Wright leit ágætlega út fyrir Snæfell og Sigurður Þorvaldsson leiddi sína menn áfram á breiðari sviðum boltans. Hjá Hamri var Þorsteinn Gunnlaugsson að vanda sterkur og Oddur Ólafs var sívinnandi.
Snæfellingar sigldu öruggum sigri í land 85-57. Sherrod Wright skoraði 24 stig og Sigurður Þorvaldsson skoraði 11 og tók 18 fráköst. Þorbergur Helgi var með 13 stig og Jóhann Kristóefr 12 stig. Í liði Hamars var Þorsteinn Gunnlaugsson að skora 21 stig og taka 9 fráköst en Oddur Ólafsson var honum næstur með 16 stig og 8 fráköst.
Texti: Símon B. Hjaltalín
Mynd úr safni: Stefán Karel lauk leik með 8 stig, 8 fráköst, 4 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 5 varin skot. (Sumarliði Ásgeirsson)