Þau stórtíðindi voru að berast úr Stykkishólmi að Snæfell, Íslandsmeistarar árið 2010, hafa ákveðið að leggja niður karlalið félagsins, að minnsta kosti tímabunið. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook síðu félagsins nú í kvöld.
Í tilkynningunni kemur fram að vegna erfiðleika við að manna karlalið félagsins, sem og rekstrarerfiðleika sjái stjórn körfuknattleiksdeildar sér þann leik einan á borði að leggja niður meistaraflokk karla. Snæfell hefur spilað í fyrstu deild frá árinu 2017, en enduðu neðstir í deildinni á síðustu leiktíð, með 4 stig. Félagið má hins vegar muna sinn fífil fegurri, því meistaraflokkur karla varð Íslandsmeistari árið 2010 og bikarmeistari í tvígang, 2008 og 2010.
Ekki er ljóst hvað verður um sæti Snæfells í 1. deild karla, en við flytjum fregnir af því þegar um leið og þær berast.