Snæfell tryggði sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum Poweradebikars kvenna með öruggum sigri á Fjölni í Stykkishólmi. Liðin mættust einnig í Domino´s deild kvenna fyrr í vikunni þar sem Fjölnir fékk stóran skell, sú varð raunin einnig í kvöld.
Hólmarar byrjuðu með látum og komust í 20-9 þegar Ágúst Jensson ákvað að taka leikhlé fyrir gestina. Skömmu eftir leikhlé mætti Brittney Jones með dreifbýlisþrist og minnkaði muninn í 22-14 en Snæfell leiddi 25-17 að loknum fyrsta leikhluta.
Vörnin fékk meiri athygli í öðrum leikhluta og Fjölniskonur færðust nærri. Brittney Jones minnkaði muninn í 27-26 en þá rönkuðu heimakonur við sér á nýjan leik. Alda Leif kom Snæfell í 37-28 og þá var beðið um leikhlé, greinilegt var á þessum tímapunkti að Mæjan var komin í húsið sökum fagnaðarlátanna í stúkunni. Snæfell leiddi svo 43-30 í hálfleik.
Hildur Björg Kjartansdóttir var með 11 stig í hálfleik og nafna hennar Sigurðardóttir 9. Hjá Fjölni var Brittney með 13 stig og Berdís með 10.
Snæfell jók muninn snemma í síðari hálfleik og komust í 55-36 eftir körfu frá Kieraah Marlow. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 62-44 Snæfell í vil og ljóst í hvað stefndi.
Heimakonur í Hólminum voru með leikinn í hendi sér í lokafjórðungnum, bilið einfaldlega orðið of mikið til að Fjölnir næði að komast upp að hlið þeirra að nýju og lokatölur 76-57 og Snæfell komið í 8-liða úrslit.
Umföllun: HIG