Snæfell hefur ákveðið að draga lið sitt úr keppni fyrir næsta tímabil í efstu deild kvenna. Staðfestir félagið þetta með fréttatilkynningu fyrr í dag. Hana er hægt að lesa hér fyrir neðan, en í henni er meðal annars minnst á að liðið hafi misst máttarstólpa frá síðustu leiktíð, en þær enduðu í 7. sæti Dominos deildarinnar á yfirstandandi tímabili.
Karlalið Snæfells var lagt niður fyrir síðasta tímabil, en þeir hyggjast nú endurvekja það fyrir næsta tímabil og skrá það til leiks í 2. deild karla.
Tilkynning:
Ágætu stuðningsmenn.
Stjórn KKD Snæfells hefur tekið þá ákvörðun að draga kvennalið Snæfells úr keppni í Dominos deildinni. Ákveðið var að skrá liðið í fyrstu deild fyrir komandi leiktíð. Ástæða er rekstur sem og að máttarstólpar liðsins frá síðustu leiktíð leita á önnur mið og um leið erfitt að manna lið fyrir Dominos deildina. Því var ákveðið að setja liðið í fyrstu deild þar sem ungir leikmenn liðsins fá að speyta sig sem og byggt á leikmönnum úr yngri flokkum. Þetta var erfið ákvörðun en fyrir hag klúbbsins teljum við þetta vera það rétta í stöðunni að svo stöddu.
Þá viljum við einnig tilkynna að félagið ætlar að skrá karlalið til leiks í annarri deild.
Fyrir hönd KKD stjórn Snæfells
Jón Þór Eyþórsson, formaður