22:04
{mosimage}
(Jón Ólafur Jónsson var stigahæstur Snæfellinga í kvöld)
Snæfell komst áfram eftir gífurlega spennandi leik við Stjörnuna í oddaleik liðanna í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla. Snæfell náði um 10 stiga forskoti í öðrum fjórðung og gaf það lítið eftir þangað til í fjórða hluta. Snæfell hafði að lokum 73-71 sigur og komst áfram í undanúrslit þar sem þeir mæta Grindavík. Hjá Snæfelli skoraði Jón Ólafur 20 stig og var Snæfelli mikilvægur undir lokin. Sigurður Þorvaldsson setti 17 stig og tók 9 fráköst. Hlynur Bæringsson var með 14 stig og 12 fráköst. Hjá Stjörnunni voru Justin og Jovan með 16 stig hvor og Ólafur J. Sigurðsson 13 stig. Fannar Helgason var með 11 stig og 10 fráköst.
Jón Ólafur Jónsson hjá Snæfelli sagði eftir leikinn að þeir væru snillingar í að gera sér erfitt fyrir og að sóknarleikurinn væri enn svolítið stirður. ,,Við breyttum varnarleiknum og leyfðum Justin að leika svolítið lausum hala en lokuðum á alla aðra. Núna vorum við þó að berjast og menn vildu þetta meira núna en í Garðabænum, og þeir komu alveg brjálaðir í leikinn eins og við var að búast. En við þurfum að eiga betri leiki á móti Grindavík til að klára."
Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunar var svekktur og sagði:
,,Við vorum að hitta illa í fyrri hálfleik og voru slakir, þá hleyptum við þeim of mikið inn í leikinn á köflum og gerðum okkur erfitt fyrir. Við héldum okkur við okkar skipulag og það er það sem við höfðum til að taka þetta og komast inn í þetta aftur."
Leikurinn byrjaði af svakalegum krafti eins og við var að búast en fyrstu stig leiksins komu ekki fyrr en eftir tvær mínútur frá Justin Shouse fyrir gestina úr Garðabæ. Liðin voru vel einbeitt og fullt í Fjárhúsinu af stuðningsmönnum beggja liða sem voru tilbúnir í slaginn. Jón Ólafur(Nonni) jafnaði fyrir Snæfell og voru liðin jöfn 2-2. Þegar staðan var 7-7 setti Magni þrist sem kom þeim í 10-7 en Stjörnumenn létu ekki áhlaupið á sig fá og voru liðin jöfn 14-14 þegar 2 mín voru eftir af fyrsta hluta. Varnarleikur beggja liða var stífur en sóknarleikurinn þéttur en engu að síður brösugur. Snæfell leiddi naumt eftir fyrsta fjórðung 16-14 og leikurinn var opinn og gríðalega skemmtilegur og liðin að selja sig dýrt.
Snæfell kom sterkari inn í annan hlutann og komust í 27-16 eftir 8-0 kafla með tveimur stolnum boltum frá Magna og einum þristi frá honum að auki á kaflanum. Stjörnumenn voru óheppnir með skotin sín en þau voru ekki að detta og voru t.a.m komnir með einn þrist niður frá Kjartani af 10 skotum sínum. Nonni setti 3 stig eftir erfiða sókn Stjörnumanna og komust Snæfellingar í 30-17. Snæfellingar unnu leikhlutann örugglega 22-13 og leiddu inn í hálfleikinn 38-27 og voru að sína á sér mikið betri hliðar en í síðasta leik.
Hjá Snæfelli var Wagner kominn með 10 stig, 6 frák og 6 stoðs. Sigurður var með 8 stig og 4 frák. Magni 6 stig og 4 frák. Hjá Stjörnunni var Justin með 7 stig Fannar 5 stig og 5 frák. Ólafur var kominn með 5 stig.
Jafnt var á með liðunum framan af þriðja hluta og voru þau að skora til skiptis. Þó Snæfell hefði 10 stiga forskot þá voru Stjörnumenn að stilla sig af í vörninni og náðu betri stoppum en sigu lítið á Snæfellinga sem voru einnig að spila fína vörn.
Enginn einn var að taka af skarið fyrir liðin en ef einhvern á að nefna þá var Ólafur að gera usla fyrir Stjörnumenn og Nonni var að setja mikilvæg stig fyrir Snæfell. Snæfell leiddi engu að síður eftir þriðja hluta 53-44 en Stjörnumenn biðu í ofvæni eftir smá mistökum frá Snæfelli til að refsa og unnu hlutann 15-17.
Nonni byrjaði fjórða hluta á þremur stigum fyrir Snæfell en Jovan svaraði að bragði. Varnir beggja liða höfðu verið gríðarlega einbeittar og stíft spilað þar sem mikið var í húfi. Hlynur kom Snæfelli í 60-51 með þremur stigum og hélt sínum mönnum við efnið en Justin svaraði að bragði til að halda sínum mönnum á tánum þegar um 5 mín voru eftir. Jovan minnkaði muninn í 62-59 með stórskoti og voru Stjörnumenn að nálgast ansi hratt þegar þeir komust nær 64-61 þegar Guðjón setti eina körfu og hafði hann verið að stíga vel upp fyrir liðið. Jovan setti tvö víti sem kom leiknum í 64-63 og allt á suðupunkti.
Hlynur og Wagner voru þó ekki til í að fara í frí og áttu næstu 4 stigin. Wagner hafði lítið sést í seinni hálfleik og í kjölfarið fékk Justin tæknivillu og setti Nonni tvö stig þar niður og Snæfell komst í 70-63 þegar 1:30 voru eftir. Snæfell hélt sig við efnið en Fannar setti einn svakaþrist og Subasic braut á honum og Fannar setti niður vítið og leikurinn alveg að fara með liðið í stúkunni. Þegar 44 sekúndur voru eftir var staðan 72-69 fyrir Snæfell og þeir með boltann eftir leikhlé. Hlynur setti ekki niður vítin sín og var að klikka á ögurstundu en í næstu sókn Stjörnunar fékk Hlynur villu og Fannar setti tvö víti niður þegar 6.9 sek voru eftir og staðan 72-71. Snæfell fór í sókn og létu Stjörnumenn elta sig um allt og á endanum náði Stjarnan að brjóta á Nonna þegar 1.9 sek var eftir eða það hélt fólk þangað til dómarar leiksins breyttu klukkunni í 3.5 sek. Nonni setti 1 víti og Stjarnan óð í sókn en Snæfell komst inn í sendingu þegar klukkan rann út en Stjarnan átti innkast. Stjarnan klikkaði á innkastinu og Snæfell fékk innkastið og kláruðu dæmið. 73-71 voru lokatölur og Snæfellingar fóru áfram eftir alveg svakalegan leik.
Texti: Símon B. Hjaltalín.
Mynd: Eyþór Benediktsson