spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaSláturhúsið stóð undir nafni

Sláturhúsið stóð undir nafni

Keflavík lagði Hauka nokkuð örugglega í Blue höllinni í kvöld í 7. umferð Bónus deildar karla, 117-85. Eftir leikinn er Keflavík um miðja deild með fjóra sigra og þrjú töp á meðan Haukar hafa ekki unnið neinn leik í fyrstu sjö umferðunum.

Fyrir leik

Gengi beggja liða verið nokkuð fyrir neðan væntingar það sem af er tímabili. Keflavík unnið þrjá og tapað þremur á meðan Haukar leituðu enn að fyrsta sigrinum eftir fyrstu sex umferðirnar.

Gangur leiks

Segja má að leikurinn hafi farið nokkuð hægt af stað og voru bæði eilítið að finna út hvað virkaði og hvað ekki. Það eru þó heimamenn sem ná lengst af að vera á undan í fyrsta fjóðungnum, en þegar leikhlutinn er á enda munar þremur stigum á liðunum, 26-23. Með góðum kafla uppúr miðbygg annars leikhlutans ná heimamenn að slíta sig frá gestunum og byggja sér upp þægilega forystu. Munurinn 15 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 57-42.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Sigurður Pétursson með 14 stig og fyrir Hauka var Everage Richardson kominn með 15 stig.

Keflvíkingar láta kné fylgja kviði í upphafi seinni hálfleiksins. Líkt og það virtist mikið til vera í fyrri hálfleiknum, hélt það áfram í þeim seinni að Haukar spiluðu litla sem enga vörn. Úr varð að Keflavík var búið að skora 91 stig eftir þrjá leikhluta og leiddi með 27 farandi inn í þann fjórða, 91-64. Fjórði leikhlutinn var svo svipað spennandi og sá annar og þriðji. Heimamenn náðu að halda í fenginn hlut og sigra að lokum gífurlega örugglega, 117-85.

Atkvæðamestir

Fyrir Keflavík var Halldór Garðar Hermannsson stigahæstur í kvöld með 23 stig. Þá skilaði Jarell Reischel 19 stigum og Sigurður Pétursson með 18 stig.

Fyrir Hauka var Everage Lee Richardson stigahæstur með 18 stig og Tyson Jolly og Steeve Ho You Fat báðir með 16 stig.

Hvað svo?

Nú er komið að landsleikjahléi hjá báðum liðum, en Ísland leikur heima gegn Ítalíu þar næsta föstudag í Laugardalshöllinni og mánudaginn eftir, 25. nóvember, gegn Ítalíu ytra í undankeppni EuroBasket 2025.

Bæði lið eiga leik næst þann 29. nóvember, en þá taka Haukar á móti Njarðvík í Ólafssal og Keflavík fær Grindavík í heimsókn í Blue höllina.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -