{mosimage}
Yfirburðir Keflavíkur voru algerir er þeir rótburstuðu Skallagrím 129 – 79 í þriðja undanúrslitaleik liðanna í Iceland Express deildinni. Staðan er því 2-1 í einvíginu Keflavík í vil en Íslandsmeistararnir fóru hamförum í leiknum.
Skallagrímur hóf leikinn betur og komst í 4-0 með körfum frá Hafþóri Gunnarssyni og George Byrd. Keflavík gerði sín fyrstu stig í leiknum þegar um 2 mínútur voru liðnar en breyttu þó stöðunni í 6 – 4 sér í vil. Varnir beggja liða láku sem gatasigti í upphafi leiks og skiptust liðin á að hafa forystuna. Pálmi Sævarsson kom sterkur inn hjá gestunum í 1. leikhluta og gerði 7 síðustu stig gestanna í leiklutanum. Staðan að loknum 1. leikhluta var 30 – 26 Keflavík í vil og stefndi í bráðfjörugan leik.
{mosimage}
Pétur Sigurðsson jafnaði metin fyrir gestina í 30–30 í upphafi 2. leikhluta og munaði oft mjóu að upp úr syði millum manna sem lögðu nú meiri áherslu á varnaleikinn en í 1. leikhluta. Þegar um 6 mínútur voru til loka 2. leikhluta var staðan 42-36 Keflavík í vil en Pétur mundaði þá byssuna á nýjan leik og minnkaði muninn í 42–39. Þessi þriggja stiga karfa Péturs var vendipunktur í leiknum því heimamenn gangsettu færibandið í Sláturhúsinu, gengu hreint til verks og greiddu gestunum rothögg. Úr 42 -39 fór leikurinn í 59–39 Keflavík í vil og áttu Borgnesingar aldrei möguleika á því að komast aftur inn í leikinn.
AJ Moye var með 25 stig í hálfleik hjá Keflavík og Magnús Gunnarsson 11 en Jovan Zdravevski var með 17 stig hjá Skallagrím sem hefði eflaust þegið meiri hjálp frá félaga sínum Byrd sem hafði eingöngu gert 5 stig í hálfleik.
Flestir áttu von á því að Valur Ingimundarson myndi senda sína menn vitstola af reiði inn í seinni hálfleikinn en ekki var annað að sjá á leik Skallagrímsmanna en handklæðin hefðu farið meðferðis úr búningsklefanum til þess eins að henda þeim inn á völlinn. Að loknum 3. leikhluta var staðan 95 – 59 Keflavík í vil og átti aðeins eftir að fá úr því skorið hversu stór sigur Keflavíkur yrði. Lokatölur leiksins voru 129 – 79 fyrir Keflavík sem leiðir nú einvígið 2-1.
{mosimage}
AJ Moye var stigahæstur hjá Keflavík með 37 stig og 12 fráköst en næstir honum voru þeir, Vlad Boeriu, Guðjón Skúlason, Magnús Gunnarsson og Gunnar Einarsson allir með 14 stig. Jovan Zdravevski gerði 19 stig fyrir Skallagrím og Pétur Sigurðsson gerði 16.
Tölfræði leiksins:
http://www.isisport.is/isi/urslit/kki/2006/00002424/24240601.htm
Myndir og umfjöllun af www.vf.is
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}