Þór tók á móti KR í kvöld í Icelandic Glacial Höllinni. KR-ingar komu sterkir til leiks og virtust mjög einbeittir. Þeir hittu vel úr sínum skotum á meðan að lítið gekk hjá heimamönnum sem hittu illa úr sínum skotum og töpuðu mörgum boltum í upphafi leiks. KR ingar sigldu hratt og örugglega fram úr, með Joshua Brown fremstan í flokki, staðan eftir 1. leikhluta var 12-22 þeim í vil.
Leikur Þórs gjörbreyttist eftir að Baldur Þór kom inn á völlinn og fór að stjórna leik liðsins. Þór saxaði jafnt og þétt á forskot KR inga. Junior kom sterkur inn og varði fullt af skotum. KR ingar voru orðnir hræddir við að skjóta yfir hann og Finnur kastaði boltanum frekar útaf í stað þess að láta verja skotið frá sér. Staðan í hálfleik var 35-37 KR í vil.
Jafnræði var með liðunum í byrjun seinni hálfleik en KR þó allt aðeins á undan. Junior fékk fjórðu villuna sína um miðjan leikhlutann sem gerði honum erfitt fyrir varnarlega. Benni setti hann svo á bekkinn. KR ingar náðu muninum svo í 11 stig undir lok leikhlutans með tveimur vítum frá Jón Orra áður en Gummi setti niður flautu þrist og staðan fyrir loka leikhlutann var 53-61 KR í vil.
Gummi kom svo sterkur inn í 4. leikhlutann með tvo þrista fljótlega og náði muninum niður í sjö stig. KR ingar voru þó ekki á þeim buxunum að gefast upp og náðu að halda heimamönnum nægilega langt frá sér með mjög svo skynsömum leik og loka niðurstaðan var því að KR hafði betur í leiknum. Lokastaða var 73-80 fyrir KR.
Stórir póstar í liði heimamanna voru ekki að standa sig. Darren var ekki að gera gott mót og greinilegt að hann hafi klárað alla hittni í stjörnuleiknum og Janev sýndi okkur í fyrri hálfleik að hann er góður leikmaður en það hvarf allt í seinni hálfleik. Þó samt besti leikurinn hans hingað til.
Heildarskor:
Þór Þorlákshöfn: Matthew James Hairston 21/7 fráköst/5 varin skot, Guðmundur Jónsson 14/4 fráköst, Blagoj Janev 13/4 fráköst, Darrin Govens 12, Darri Hilmarsson 8/5 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 5, Þorsteinn Már Ragnarsson 0, Bjarki Gylfason 0, Emil Karel Einarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0.
KR: Joshua Brown 22/7 fráköst, Hreggviður Magnússon 17, Dejan Sencanski 13/12 fráköst, Finnur Atli Magnusson 7/8 fráköst/5 stoðsendingar, Robert Lavon Ferguson 7/6 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 7, Martin Hermannsson 4, Jón Orri Kristjánsson 3, Skarphéðinn Freyr Ingason 0, Páll Fannar Helgason 0, Ólafur Már Ægisson 0, Ágúst Angantýsson 0.
Dómara leiksins voru þeir Rögnvaldur Hreiðarsson og Georg Andersen. Þeir komust vel frá mjög erfiðum leik.
Mynd/ Hjalti Vignis – Brown sækir að körfu Þórsara í Icelandic Glacial Höllinni í kvöld.
Umfjöllun/ Hákon Hjartarson