spot_img
HomeFréttirSkyldusigur Tindastóls

Skyldusigur Tindastóls

Tindastóll og Skallagrímur mættust í gærkvöld í 8 liða úrslitum Poweradebikars KKÍ. Skallagrímur í 1. deildinni og fyrirfram búist við nokkuð öruggum sigri heimamanna. Byrjunarlið Tindastóls var að þessu sinni skagfirskt, frændurnir og bræðurnir, Rikki, Svavar og Hreinsi ásamt Helgunum tveimur. Hjá Sköllunum byrjuðu Birgir, Hafþór, Mateuz, Halldór og Darrell Flake.

 
Fyrsti leikhluti var lítið fyrir augað og leikur beggja liða hálf dofinn. Stólarnir byrjuðu þó betur og komust í 11 – 5, en Skallagrímur jafnaði í 11 – 11. Tindastóll leiddi síðan með tveimur stigum, 15 – 13, að loknum fyrsta leikhluta.  

Tindastóll ákvað að keyra aðeins upp hraðann í öðrum leikhluta. Þeir byrjuðu á tveimur þristum og skoruðu síðan fyrstu 12 stig leikhlutans.  Um miðjan leikhlutann vöknuðu gestirnir og komu með smá kafla, en síðan tóku heimamenn aftur völdin. Skoruðu 11 – 4 og höfðu 17 stiga forskot í  hálfleik í stöðunni 40 – 23. Smá segja að þar með hafi úrslitin verið ráðin.

Í þriðja leikhluta skoraði Skallagrímur aðeins fjögur stig fyrstu átta mínútur hans og voru komnir í vond mál í stöðunni 53 – 27. Þeir réttu aðeins sinn hlut í lok fjórðungsins með sex stigum í röð. Tindastóll hafði því 20 stiga forskot fyrir síðasta leikhlutann, 53 – 33.

Leikurinn fjaraði síðan út í síðasta fjórðungnum og nær allir fengu að spila hjá báðum liðum og að endingu hafði Tindastóll 24 stiga sigur, 72 – 48. Stigahæstur Tindastóls var Hayward Fain með 15 stig, en næstir komu Svavar og Dragoljub með 14 hvor. Þá tók Helgi Rafn 18 fráköst og Svavar 11. Hjá Skallagrími bar Flake  af með 17 stig og 11 fráköst. Stólarnir fóru tiltölulega létt í gegnum þennan leik og virtust ekki ætla að gera nema það sem til þyrfti til að vinna. Skallagrímur reyndi mikið af langskotum og voru að hitta frekar illa svo það var bara í byrjun sem þeir náðu að stríða heimamönnum.

Stigaskor Tindastóls: Hayward 15, Svavar 14, Kiki 14, Rikki 9, Sean 9, Helgi Rafn 5, Helgi Freyr 4 og Halli 2.

Skallagrímur: Flake 17, Zowa 8, Hafþór 7, Halldór 7, Birgir 6 og Davíð 3.

Dómarar: Davíð Kr. Hreiðarsson, Georg Andersen og Ísak Ernir Kristinsson í nokkuð auðdæmdum leik.

Texti: JS.

 
Mynd: Hjalti Árnason – Myndasafn
Fréttir
- Auglýsing -