Vestri og Snæfell mættust í 1. deild karla á Jakanum á Ísafirði í gærkvöldi. Vestri er enn í hörku baráttu um sæti í úrslitakeppninni á meðan ungt lið Snæfells vermdi neðsta sætið, jafnt Sindra frá Höfn að stigum. Bæði lið sigruðu í síðustu umferð, Vestri vann topplið Þórs Akureyri á meðan Snæfell lagði Sindra að velli í Stykkishólmi.
Gangur leiksins
Það var ljóst að heimamenn ætluðu að gera út um leikinn strax á upphafsmínútunum en þeir skoruðu 10 fyrstu stig hans og leiddu 20-6 eftir 5 mínútur. Tvíburabræðurnir Hugi og Hilmir Hallgrímssynir fóru mikin á upphafskaflanum en þeir skoruðu 11 af fyrstu 15 stigum Vestra.
Eftir að hafa skoraði einungis 11 stig á móti 36 stigum heimamanna í fyrsta leikhluta þá sýndu gestirnir meiri mótspyrnu í öðrum leikhluta og náðu muninum minnst niður í 19 stig, 46-27. Lengra komust þeir þó ekki og Vestri fór með 29 stiga forustu, 58-29, inn í hálfleik.
Þriðji leikhluti byrjaði líkt og sá fyrsti, Vestramenn keyrðu upp hraðann og skoruðu 15 af fyrstu 18 stigum leikhlutans. Fremstur í flokki fór Jure Gunjina en hann skoraði 14 af 18 stigum sínum í leikhlutanum, eða jafn mikið og allt Snæfellsliðið.
Mest náðu heimamenn 54 stiga forustu, 97-43, í byrjun fjórða leikhluta áður en gestirnir náðu að laga stöðuna aðeins á lokamínútunum á móti minni spámönnum Vestra. Lokastaðan 105-63 fyrir Vestra.
Með sigrinum hefur Vestri 4 stiga forustu á Selfoss í baráttunni um síðasta sætið inn í úrslitakeppnina. Snæfell er þegar dottið úr leik um sæti í úrslitakeppninni og líklegast mun leikur þeirra við Sindra í lokaumferðinni ráða hvort liðið vermir neðsta sætið í deildinni.
Tölfræði
Vestramenn voru sjóðandi heitir fyrstu þrjá leikhlutana og þótt það hafi aðeins kólnað á Jakanum í loka leikhlutanum þá enduðu þeir með 60% tveggja stiga nýtingu (23/38), 46% þriggja stiga nýtingu (12/26) og 95% vítanýtingu (23/24).
Gestirnir voru að sama skap ískaldir fram í fjórða leikhluta og enduðu með 25% tveggja stiga nýtingu (13/51), 36% þriggja stiga nýtingu (9/25) og 62% vítanýtingu (10/16).
Hetjan
Stoðsendingakóngur 1. deildarinnar, Nebojsa Knezevic, skellti í myndarlega tvennu í leiknum en hann var með 17 stig og 17 stoðsendingar á móti engum töpuðum boltum á einungis rúmlega 26 mínútum.
Helstu stigaskorarar
Hjá Vestra var Jure Gunjina stigahæstur með 18 stig en næstir komu Nebojsa og Hugi Hallgrímsson með 17 stig. Ingimar Baldursson skoraði 12 stig, öll úr þriggja stiga skotum og Vestfjarðartröllið Nemanja Knezevic skoraði 11 stig ásamt því að taka 15 fráköst. Hilmir Hallgrímsson skoraði 10 stig og Rauða Þruman Helgi Snær Bergsteinsson bætti við 8 stigum.
Hinn 16 ára gamli Ísak Örn Baldursson var bestur hjá Snæfelli, hitti vel og skoraði 14 stig. Aron Ingi Hinriksson kom næstur með 11 stig, gamla brýnið Darrell Flake skoraði 9 stig og Dominykas Zupkauskas bætti við 8 stigum en hann vill líklegast gleyma þessum leik sem fyrst enda setti hann einungis 3 af 25 skotum sínum ofan í.
Yngvi: “Það rúllaði allt sem við settum upp”
Vladimir: “This is the time for our players to grow”
Tengd efni