Keflavík sigraði ÍR í Dominos deild karla á heimavelli sínum, í TM Höllinni, með 100 stigum gegn 80. Keflavík því sem fyrr í 2. sæti deildarinnar á meðan að ÍR eru í 10. sæti deildarinnar. Fyrir leikinn mátti kannski allt eins gera ráð fyrir spennandi leik. Bæði lið unnu stórt í síðustu umferð. Keflavík gegn FSU á Selfossi, en ÍR gegn Snæfell heima í Breiðholti. Keflavík í harðri baráttu við Stjörnuna um 2. sæti deildarinnar á meðan að fyrir leikinn höfðu ÍR mjög veika von um að tryggja sér 8. og síðasta sæti úrslitakeppni þessa árs.
Keflavíkingar fóru betur af stað í leiknum. Náðu að halda gestunum án stiga fyrstu 3 mínútur leiksins, en fljótlega uppúr því fer vörn ÍR að virka betur. Spiluðu mjög þétta vörn þarna í byrjun og þegar að hlutinn var hálfnaður voru þeir aðeins búnir að leyfa 9 stig. Á meðan að þeir höfðu sjálfir skorað 8. Dagskipun heimamanna sóknarlega fyrir þessa byrjun leiks virtist að miklu leyti vera að koma boltanum inná Jerome Hill á blokkinni, en þar sem að ÍR spiluðu án erlends leikmanns síns, Jonathan Mitchell, var eitthvað minna um varnir þar. Undir lok leikhlutans fara heimamenn svo að pressa ÍR allan völlinn. Það gefst þeim vel og þegar að leikhlutinn endar eru þeir búnir að komast 7 stigum frammúr gestunum 26-19.
Gestirnir mættu svo vel stemmdir til leiks í 2. leikhlutann. Dýrvitlausir varnarlega ná þeir að vinna niður mun heimamanna og loks jafna leikinn á fyrstu tveimur mínútum hlutans. Í gang fer þá 10 stiga áhlaup heimamanna, en þegar að hálfleikurinn var á enda voru heimamenn komnir með 13 stiga forystu, 51-38.
Atkvæðamestur í fyrri hálfleik fyrir heimamenn var áðurnefndur Jerome Hill með 15 stig og 3 fráköst á meðan að fyrir gestina var það Trausti Eiríksson sem dróg vagninn með 6 stig og 3 fráköst.
Seinni hálfleikinn opnaði liðsmaður ÍR, Kristján Pétur Andrésson, með löngum þrist og kom mun heimamanna niður í 10 stig, 51-41. Uppúr því taka heimamenn aðra rispu, 10 stiga áhlaup og um miðbygg hlutans var munurinn kominn í 25 stig. Leikmaður Keflavíkur, Magnús Már Traustason, fór mikinn í leikhlutanum sóknarmegin, en eftir að hafa skorað aðeins 4 stig í fyrri hálfleiknum setti hann heil 13 í 3. leikhlutanum. ÍR nær aðeins að klóra í bakkann í lokin, staðan 76-58 fyrir lokaleikhlutann.
Fjórði og síðasti leikhluti leiksins var svo að miklu leyti formsatriði. Þó munurinn hafi verið aðeins 16 stig þegar að 5 mínútur voru eftir var ljóst að heimamenn voru að dreifa mínútum vel á lið sitt. Spiluðu allir nema 2 leikmenn 10 mínútur eða fleiri í leiknum fyrir Keflavík. Lið ÍR reyndar líka, þar sem aðeins 3 leikmenn spiluðu færri en 10 mínútur í leiknum. Í heildina voru heilir 10 leikmenn sem skoruðu 10 stig eða fleiri hjá báðum liðum. Ungur leikmaður ÍR, Eyjólfur Ásberg Halldórsson, fór hamförum í seinni hálfleiknum. Eftir að hafa verið stigalaus í fyrri hálfleiknum, setti hann heil 17 í þeim seinni (á aðeins 13 mínútum)
Að lokum fór svo að Keflavík sigraði leikinn, frekar auðvelt, með 20 stigum, 100-80.
Maður leiksins var leikmaður Keflavíkur, Jerome Hill, með 17 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar á þeim 25 mínútum sem hann spilaði.
Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur
Myndir / Bára Dröfn
Viðtöl: