Maðurinn með rauðvínseiginleikana, hr. ÍR, flestum kynntur sem Eiríkur Önundarson segir ekki loku fyrir það skotið að hann taki annað tímabil með ÍR í Iceland Express deild karla. Eiríki óx ásmegin með hverjum leiknum á síðasta tímabili og segir skrokkinn í fínu lagi um þessar mundir. Ferillinn á parketinu gæti þó verið í smávægilegri hættu þar sem Eiríkur er einn af stofnendum nýs kraftlyftingafélags.
Hvernig standa málin hjá ÍR varðandi næsta tímabil, á að fara strax í að nýta sér nýsamþykktar reglur KKÍ um tvo kana?
Undirbúningur fyrir tímabilið lítur vel út. Gunni þjálfari verður áfram og svo er búið að ganga frá samningum við kjarna hópsins sem ég tel afar mikilvægt. Á þeim kjarna viljum við byggja liðið og viðhalda þeim stíganda sem var í leik þess á síðasta tímabili. Við munum eflaust nýta okkur þessar nýju reglur en við enduðum nú reyndar tímabilið í fyrra með tvo Kana þar sem annar átti rætur að rekja til Ítalíu. Það er mikill hugur í okkur fyrir næsta tímabil en okkur fannst við fara ósanngjarnt of snemma í sumarfrí. Stjórn félagsins styður vel við bakið á okkur og kraftmikið starf þeirra er lykilþáttur í því verkefni ÍR-liðsins að taka skrefið fram á við.
Fæstir vita kannski að þó Eiríkur sé ekki með sverustu mönnum á velli þá er hann einn af stofnfélögum Zetoranna sem er nýtt kraftlyftingafélag. Þýðir þetta kannski að körfuboltaskórnir séu eftir allt saman á leið á hilluna?
Það er greinilegt að orðspor Zetoranna fer víða. Ég skil það reyndar vel en við áttum tvo menn á palli í fyrsta móti. Ég er ekki búinn að kaupa mér lyftingaskó ennþá og körfuboltaskórnir eru inni í þvottahúsi og ekki komnir í neina hillu. Ég hef nú ekki tekið endanlega ákvörðun varðandi næsta tímabil en eins og staðan er núna er frekar líklegt að ég verði með. Skrokkurinn er í fínu lagi sem er mikið til að þakka silkimjúkum höndum Péturs Arnar Gunnarssonar sjúkraþjálfara.
BSB