Búið er að opna fyrir skráningar í næstu Körfuboltabúðir Vestra sem fara fram á Ísafirði dagana 4.-9. júní 2020. Búðirnar eru ætlaðar körfuknattleiksiðkendum af báðum kynjum sem fæddir eru árin 2004-2009. Þetta eru tólftu búðirnar sem haldnar eru en þær fóru fyrst fram vorið 2009 undir merkjum Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar.
Vestrabúðirnar hafa fyrir löngu fest sig í sessi sem einar stærstu og vönduðustu búðir sinnar tegundar hér á landi en mikill metnaður er lagður í samsetningu þjálfarahópsins sem og alla umgjörð búðanna. Þær eru af mörgum taldar standast samanburð við það besta sem gerist fyrir þennan aldurshóp víða erlendis.
Þjálfarahópurinn hefur ávallt verið góð blanda af innlendum og erlendum þjálfurum og meðal yfirþjálfara búðanna í gegnum tíðina má nefna kempur úr íslenskum körfubolta á borð við Borce Ilievski Sansa, Finn Frey Stefánsson og Inga Þór Steinþórsson. Þess má einnig geta að margir af iðkendum búðanna hafa síðar orðið leikmenn í yngri landsliðum Íslands.
Samhliða Körfuboltabúðunum er boðið upp á svokallar Grunnbúðir en þær eru ætlaðar yngstu iðkendum körfunnar sem fæddir eru 2010-2013. Æft er þrjá daga í röð í um klukkustund í senn og er Grunnbúðunum ætlað að gefa þátttakendum smjörþefinn af því sem bíður þeirra í stóru búðunum. Ekki er skráð sérstaklega í Grunnbúðirnar heldur nægir að mæta á fyrsta degi. Tímasetningar þeirra verða auglýstar nánar síðar.
Skráning í Körfuboltabúðir Vestra fer fram á vefsíðu Vestra: www.vestri.is/korfuboltabudir