spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaSkotsýning frá Shabazz reið baggamuninn fyrir Njarðvík

Skotsýning frá Shabazz reið baggamuninn fyrir Njarðvík

Njarðvík tók á móti Hetti í fimmtándu umferð Bónus-deildar karla í IceMar-Höllinni í kvöld. Skemmst er frá því að segja að gestirnir frá Egilsstöðum seldu sig dýrt þetta kvöldið! Njarðvíkingar slitu út sigur en það var vel fyrir honum haft, lokatölur 110-101. Nokkuð var um pústra og sex leikmenn fuku af velli með fimm villur í glímunni.

Adam Eiður Ásgeirsson var mættur í slaginn gegn uppeldisfélaginu, mögulega ekki hægt að segja „mættur á gamla heimavöllinn“ þar sem Adam sleit barnsskónum í Ljónagryfjunni og því ókunnur hinni nýju IceMar-Höll. 

Njarðvíkingar leiddu 30-23 eftir fyrsta leikhluta þar sem Evans var með 15 stig fyrir heimamenn, 3-4 í þristum. Trotter og David Ramos beittastir í fyrsta fyrir gestina með 6 og 7 stig. 

Hattarmenn voru ekkert á þeim buxunum að láta stinga sig af, gestirnir þéttu raðirnar varnarlega og náðu að jafna metin 39-39 þegar rúmar tvær mínútur voru til hálfleiks. Það voru þó heimamenn sem leiddu í hálfleik 45-51 en sterkur annar leikhluti hjá Hetti sem tóku þessar 10 mínútur 15-18. 

Evans var stigahæstur hjá Njarðvík í hálfleik með 17 stig og 4 fráköst en hjá Hetti var Trotter með 8 stig og 2 fráköst. 

Skammt var liðið af síðari hálfleik þegar Trotter kom Hetti yfir 49-51 með þrist og heimamönnum varð lítt ágengt gegn vörn gestanna. Roberts var einnig ferskur hjá gestunum í upphafi síðari hálfleiks og þegar Höttur komst í 51-57 tók Rúnar Ingi leikhlé fyrir heimamenn.

Shabazz kemur Njarðvík á sporið

Shabazz kom beint úr leikhléinu og minnkaði muninn í 54-57 með þrist fyrir Njarðvíkinga en Trotter var ekki af baki dottinn og annar þristur frá honum kom Hetti í 57-63 og liðlega þrjár mínútur eftir af þriðja leikhluta. 

Shabazz hélt sínum mönnum við efnið og kom Njarðvík yfir 73-66 með svakalegri 14 stiga rispu úr eigin vasa. Hann var ekki hættur þarna kappinn og kom Njarðvík síðan 76-68 með þrist og því 17 stiga rispa! Njarðvík leiddi 76-72 eftir þriðja og Shabazz kominn í 27 stig. Matej Karlovic fékk sína fjórðu villu í þriðja leikhluta og varð því að vera spakur með síðustu villuna sína. Fjörugur leikhluti sem fór 31-31. 

Í brakinu í fjórða setti Veigar stóran þrist fyrir Njarðvíkinga og kom heimamönnum í 84-79 þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Snöggtum síðar þurfti Milka frá að hverfa með sína fimmtu villu og kvaddi hann leikinn með 10 stig og 5 fráköst og Karlovic sömuleiðis í liði Hattar á fimm villum og skammt til leiksloka en hann gerði 8 stig og tók 5 fráköst í kvöld. Þeir reyndust síðan sex í heildina leikmennirnir sem kvöddu leikinn með fimm villur þetta kvöldið. 

Trotter minnkaði muninn fyrir Hött í 93-90 með þremur vítaskotum þegar rúmar tvær mínútur lifðu leiks. Veigar Páll Alexandersson svaraði því með þrist í næstu sókn og Njarðvík með 96-90 forystu á leið í lokasprettinn. Þegar 1.52 mín voru til leiksloka setti Veigar Páll þrist og villa dæmd um leið á Hött sem voru komnir í bónus og því fékk Njarðvík tvö skot sem Evans setti niður og fimm stiga sókn Njarðvíkinga á þessum tímapunkti var of þungt fyrir gestina og staðan 101-90. Hattarmenn allt annað en sáttir með þessa ákvörðun dómarateymisins að gefa villuna og þristinn. Eftir þetta ógnuðu gestirnir ekki forystu heimamanna og lokatölur eins og áður greinir 110-101. 

Shabazz var stigahæstur Njarðvíkinga með 31 stig, Veigar Páll með 25 og Evans 24. Hjá Hetti var Justin Roberts stigahæstur með 27 stig og Trotter 25.  

Með sigrinum eru Njarðvíkingar áfram í 3. sæti deildarinnar með 20 stig og Höttur með 8 stig á botninum ásamt Haukum sem töpuðu líka í kvöld. 

Næsti leikur Njarðvíkinga er gegn Val þann 30. janúar en Höttur fær Tindastól í heimsókn í MVA-Höllina á Egilsstöðum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatans)

Fréttir
- Auglýsing -