Stjórn Körfuknattleiksdeildar KR hefur, í samráði við þá Hrafn Kristjánsson og Ara Gunnarsson, ákveðið að gera ákveðnar skipulagsbreytingar hvað varðar þjálfun og starf meistaraflokka félagsins. Felast breytingarnar í því að Ari tekur við þjálfun kvennaliðs KR og Hrafn einbeitir sér að fullu að þjálfun Íslandsmeistara KR í meistaraflokki karla. Samvinna flokkanna tveggja verður sem fyrr mikil og munu þeir Hrafn, Ari, Hallgrímur Brynjólfsson og yfirþjálfari yngri flokka Finnur Stefánsson halda áfram þeirri markvissu afreksstefnu og samstarfi elstu flokka félagsins sem hefur verið til prýði það sem af er tímabils. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KKD KR.
Í tilkynningunni segir ennfremur:
Stjórn Körfuknattleiksdeildar vill koma á framfæri ánægju og þakklæti sínu fyrir störf Hrafns með kvennalið félagsins fram að þessu og um leið fagna auknu vægi Ara í starfi félagsins.
Stjórn Körfuknattleiksdeildar vill koma á framfæri ánægju og þakklæti sínu fyrir störf Hrafns með kvennalið félagsins fram að þessu og um leið fagna auknu vægi Ara í starfi félagsins.
Ari Gunnarsson er öllu vanur úr boltanum og á langan feril, jafnt sem leikmaður og þjálfari. Ari lék alls 289 leiki á 19 árum í efstu deild í körfuknattleik með Val, Skallagrím og Hamri við góðan orðstír. Þjálfaraferill Ara í meistaraflokki hófst tímabilið 2006-2007 þegar hann tók við stöðu þjálfara meistaraflokks kvenna hjá Hamri auk stöðu aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla hjá Pétri Ingvarssyni. Næstu tvö tímabil gegndi hann þessum tveimur stöðum áfram áður en hann hélt á heimaslóðir og tók við kvennaliði Vals tímabilið 2009-2010. Tímabilið 2010-2011 þjálfaði hann svo lið Leiknis í fyrstu deild karla.
f.h. körfuknattleiksdeildar KR
Böðvar E. Guðjónsson
Formaður