KR og Fjölnir mættust í Iceland Express deild kvenna en þetta var þriðja viðureign liðanna í deildinni á þessu tímabili. Leikurinn fór fram í DHL-höllinni að þessu sinni en líkt og í síðasta leik þessara liða í vesturbænum breyttist hann í leik kattarins að músinni. Lokatölur urðu 86-42 og hafa KR stúlkur unnið alla þrjá leikina í þessari Reykjarvíkurrimmu fram til þessa.
Byrjun leiksins lofaði góðu en þó að KR stúlkur hefðu frumkvæðið þá hélt Fjölnisliðið sér skammt undan. Stigaskor beggja liða var að dreifast jafnt og vel yfir leikmannahópinn en varnarleikur beggja liða var oft ótrúlega opinn. Staðan eftir fyrsta leikhluta 19-15 KR í vil þar sem Margrét Kara og Sigrún fóru fyrir heimastúlkum en Birna og Bergdís léku vel hjá gestunum.
Jafnræði hélt áfram framan af öðrum leikhlutanum en í stöðunni 23-19 gjörbreyttist leikurinn. Vörn KR-inga skellti hreinlega í lás og höfðu gestirnir engin svör við sterkri og skynsamari liðsvörn. Fjölnir héldu sér inní leiknum á eigin varnarleik en um leið og KR stúlkur fóru að finna leiðir að körfunni að fordæmi Margrétar Köru þá skildu leiðir. Fjölnir náði einungis að skora 4 stig í leikhlutanum á meðan KR liðið, sem rúllaði vel á sínum leikmannahóp í kvöld, skoruðu 17 stig í leikhlutanum og leiddu 36-19 í hálfleik.
Margrét Kara var yfirburðarmaður á vellinum í fyrri hálfleik með 15 stig en þær Bryndís Guðmundsdóttir og Sigrún Ámundadóttir voru einnig öflugar. Hjá Fjölni var Brittney Jones engan veginn að finna sig né Katina Mandylaris en saman voru þær með 6 stig og skotnýtinguna 3 af 17.
Seinni hálfleikurinn var í raun bara formsatriði fyrir KR stúlkurnar. Varnarleikurinn var góður og þegar Fjölnisliðið fór að þreytast fékk KR liðið hverja auðveldu hraðupphlaupskörfuna á fætur annarri. Þriðja leikhlutanum lauk 22-10 fyrir KR og leiddu þær 58-29 efir þriðja leikhlutann. Í síðasta leikhlutanum fengu svo yngri leikmenn að spreyta sig og komust þær vel frá sínu, sérstaklega Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir sem skoraði 9 stig, flest þeirra af dýrari gerðinni. Leikhlutinn var þó leikinn einsog um æfingaleik var að ræða því stigataflan í KR heimilinu bilaði enn einu sinni en hægt var þó að leika eftir klukkunum fyrir ofan körfurnar. Þetta kom ekki að sök að þessu sinni og lauk leiknum með 86-42 sigri KR.
Mikill munur var á leik liðanna í kvöld. Vó þar þungt að hvorki Jones né Mandylaris náðu sér á strik hjá gestunum. Varnarleikur KR stúlkna var hnitmiðaður og góður eftir fyrsta leikhlutann og sést það best að Fjölnisliðið náði einungis að skora 10 stig í teig KR liðsins á meðan heimastúlkur gerðu 48 í teig gestanna. Margrét Kara bar af í KR liðinu en hún var greinilega einbeitt frá fyrstu mínútu og smellti niður 24 stigum og tók 12 fráköst. Sigrún átti einnig fínan leik sem og Erica Prosser en það var líklega framlagið af bekknum sem hlýtur að vera ánægjulegast fyrir þjálfaranna Ara og Yngva en alls komu 25 stig af KR bekknum, sem er það hæsta í vetur hjá liðinu, á meðan aðeins 4 stig komu af Fjölnisbekknum.
Batamerki eru á leik KR liðsins frá því fyrir jól þótt að liðið verði seint dæmt af þessum leik. Meiri festa er kominn í leikskipulagið og varnarleikur liðsins mun betri. Einnig eru fleiri leikmenn farnir að leggja hönd á plóg sem dreifir álaginu á fleiri herðar. Framundan eru mikilvægir leikir því ef liðið ætlar sér að klifra upp töfluna þá þarf það að ná að leggja mótherjana sem eru fyrir ofan það.
Fínt flæði var oft í sóknarleik Fjölnsliðsins í leiknum en það vantaði einfaldlega gæðin í leik liðsins til að nýta sér þau færi og aðstæður sem buðust. Þegar á leið fór trúin svo útum þúfur og því fór sem fór. Núna þegar 10 leikir eru eftir þurfa Fjölnisstúlkur að halda því forskoti sem það hefur á Hamar í fallbaráttunni en Hamar vann góðan sigur á Snæfelli og minnkaði muninn í 4 stig. Það er kannski erfitt að ætla sér sigur á erfiðum útivelli einsog í DHL-höllinni en liðið þarf fyrst og fremst að husga vel um heimavöllinn sinn og eiga sína bestu leiki þar. Þar hafa Grafarvogsstúlkurnar verið skeinuhættar í allan vetur sem er mikilvægt fyrir lið sem hefur barist við það undanfarin ár að halda sér í deid þeirra bestu.
Maður leiksins: Margrét Kara Sturludóttir
Punktar:
• Einar Skarphéðinsson og Aðalsteinn Hrafnkelsson dæmdu leikinn og stóðu sig með prýði.
• Eva María Emilsdóttir lék ekki með Fjölni í kvöld og Rannveig Ólafsdóttir var frá vegna meiðsla hjá KR.
• KR liðið fór upp í þriðja sæti með sigrinum, upp fyrir Hauka sem eiga leik til góða gegn Val.
• Fjölnisliðið er í 7. sæti, fjórum stigum fyrir ofan Hamar og tveimur stigum á eftir Val.
• Nóg er að gera í DHL-höllinni þessa vikuna en fyrir utan leikinn í gærkvöld þá fór fram á mánudag leikur KR og Snæfells þar sem Josh Brown bauð uppá sýningu en vegna mikillar eftirspurnar verður annar leikur milli liðanna á fimmtudaginn í DHL-höllinni í Iceland Express deildinni.
• Næsti leikur KR liðsins er á laugardaginn kemur gegn Val í Vodafone-höllinni. Fjölnir mætir Hamar í gríðarlega mikilvægum leik í fallbaráttunni í Grafarvoginum. Ef Fjölnir fer með sigur af hólmi þá halda þær Hamri þægilega fyrir neðan sig en ef Hamarstúlkur ná að kreista fram sigur þá galopnast baráttan og jafnvel Valur gæti dregist á hættusvæðið.
Umfjöllun/ FFS