Skallagrímur tryggði sér oddaleik í dag þegar þeir sigruðu Fjölni í fjórðu viðureign liðanna í baráttunni um laust sæti í úrvalsdeild að ári. Fyrstu þrjár viðureigningar liðanna í umspilinu voru mikil skemmtun fyrir áhorfendur og spennustigið hátt. Heimamenn í Borgarnesi og stuðningsmenn Fjölnis flykktust því í Fjósið í Borgarnesi í dag og hvöttu sín lið til dáða.
Jafnt var á með liðunum framan af í fyrsta leikhluta og skiptust þau á að hafa forystuna. Í stöðunni 18-18 setti Egill Egilsson niður þrjú stig fyrir Fjölni og á eftir fylgdu þrjú stig frá Hreiðari Bjarka Vilhjálmssyni og tvö stig frá Sindra Má Kárasyni. Fjölnir því komnir með 8 stiga forskot rétt fyrir lok fjórðungsins. Davíð Guðmundsson lagaði stöðuna fyrir Skallagrím rétt í þann mund sem fyrsti leikhluti rann út og smellti niður risastórum þristi. Fjölnir leiddi eftir fyrsta leikhluta með 5 stigum, 21-26.
Hjalti Ásberg Þorleifsson gaf tóninn og skoraði þrjú stig fyrir Skallagrím strax í upphafi annars leikhluta. Skallagrímsmenn fóru hamförum í sókninni í fjórðungnum og skoruðu 34 stig á móti 18 stigum Fjölnis sem virtust eiga fá svör við sóknartilburðum heimamanna. Skallagrímur leiddi með 11 stigum í hálfleik, 55-44.
Lítið var skorað framan af í þriðja leikhluta, mistök gerð á báða bóga og hart barist um lausa bolta. Skallagrímur tók á rás um miðjan fjórðunginn og náði 18 stiga forystu í stöðunni, 68-50. Kristófer Gíslason átti mikilvægar körfur fyrir Skallagrím í byrjun þriðja leikhluta og skoraði sex af fyrstu níu stigum liðsins í seinni hálfleik auk þess að stela tveimur boltum en á sama tíma dróg Collin Anthony Pryor vagninn fyrir gestina í sóknarleiknum.
Heimamenn héldu inn í lokafjórðunginn með nokkuð þægilega 16 stiga forystu. Þeir juku muninn enn frekar í upphafi fjórða leikhluta og náðu mest 23 stiga forystu rétt fyrir miðjan leikhlutann þegar Hamid Dicko setti niður tvö stig fyrir Skallagrím. Róðurinn því orðinn þungur hjá Fjölnismönnum. Skallagrímur sigldi að lokum heim öruggum 22 stiga sigri, 93-71, og tryggði sér með því oddaleik í umspilinu um sæti í úrvalsdeild á næsta ári.
Skallagrímur 93 – 71 Fjölnir (21-26, 34-18, 19-14, 19-13)
Skallagrímur: Jean Rony Cadet 23/17 fráköst/6 stoðsendingar, Sigtryggur Arnar Björnsson 20/5 stoðsendingar, Kristófer Gíslason 12/10 fráköst/3 varin skot, Davíð Guðmundsson 11, Hamid Dicko 10, Davíð Ásgeirsson 6/5 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 6, Hjalti Ásberg Þorleifsson 3, Kristján Örn Ómarsson 2/5 fráköst, Guðbjartur Máni Gíslason 0, Bjarni Guðmann Jónsson 0, Þorsteinn Þórarinsson 0.
Fjölnir: Collin Anthony Pryor 25/19 fráköst/4 stolnir, Egill Egilsson 15/6 fráköst, Róbert Sigurðsson 10, Valur Sigurðsson 4, Sindri Már Kárason 4, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 3/5 stoðsendingar, Bergþór Ægir Ríkharðsson 3, Árni Elmar Hrafnsson 3, Þorgeir Freyr Gíslason 2, Garðar Sveinbjörnsson 2, Alexander Þór Hafþórsson 0, Smári Hrafnsson 0
„Við fórum að spila vörn, hörkuvörn,“ sagði Finnur Jónsson í stuttu spjalli við karfan.is í dag. „Þeir skoruðu sjötíu og eitthvað stig núna og 100 stig síðast.“
„Það kemur eiginlega í ljós,“ sagði Finnur jafnframt, aðspurður um hvað liðið ætli að leggja upp með fyrir næsta leik. „Við förum bara að skoða þennan leik núna og sjá hvað virkar og hvað virkar ekki. Svo vinnum við bara út frá því.“
Finnur var ánægður með stuðninginn í stúkunni og vill hvetja alla Borgnesinga og nærsveitamenn að leggja leið sína í Dalhús á þriðjudaginn og styðja liðið í oddaleiknum. „Já, ég vil bara sjá hverja einustu hræðu og það verður bara að fresta mjöltum á þriðjudag. Það verða bara allir að mæta. Ég get komið fyrr um daginn að mjólka fyrir liðið, það er ekkert mál.“
„Aðallega vörnin fannst mér, sérstaklega í fyrri hálfleik,“ sagði Hjalti Vilhjálmsson aðspurður um hvað hafi farið úrskeiðis í leik hans manna í dag. „Við leyfðum þeim að skora einhver 45 stig. Þeir fara í einhverja svæðisvörn en við erum samt að skora nóg til að vinna leik. Við förum bara yfir þessa svæðisvörn og tæklum hana í næsta leik.“
„Við förum í gegnum þennan leik og tökum leikinn í Dalhúsum,“ sagði Hjalti þegar spurt var hvað liðið ætli að leggja upp með fyrir næsta leik. „Ég er í þessu til að vinna, ætla mér að vinna og ætla mér að fara upp. Nú er oddaleikur og þetta er það sem menn vilja vera í, svona alvöru leikir þar sem er mikið undir. Það eru langskemmtilegustu leikirnir. Þannig að menn verða bara að stappa í sig stálinu og mæta tilbúnir á þriðjudaginn.“
Hjalti tekur í sama streng og Finnur og er virkilega ánægður með stuðninginn við liðið. „Stuðningurinn hefur verið virkilega góður, alla seríuna og alla úrslitakeppnina. Bara virkilega flottur og mér finnst þeir eiga hrós skilið. En nú þurfum við bara að fylla Dalhús á þriðjudaginn.“