spot_img
HomeFréttirSkallagrímur tóku þriðja í röð og mæta Fjölni

Skallagrímur tóku þriðja í röð og mæta Fjölni

Skallagrímur fullkomnaði ótrúlega endurkomu sína í einvígi sínu gegn Val í dag með þriðja sigrinum í röð eftir að hafa lent 2-0 undir í einvíginu.  Skallagrímur spilaði flottan leik að Hlíðarenda í dag með flottan stuðning úr stúkunni og fögnuðu vel og innilega í leikslok, 82-85.  Jean Rony átti hreint út sagt stórkostlegan leik í dag, skilaði 27 stigum, 23 fráköstum, 7 stoðsendingum og 3 vörðum skotum.  Sigtryggur Arnar Björnsson var honum ekki langt undan með 23 stig.  Hjá Val var Illugi Steingrímsson stigahæstur með 23 stig en næstu menn voru Jamie Stewart með 20 stig og Högni Fjalarsson og Sigurður Dagur Sturluson með 10 stig.  

 

Leikurinn hófst strax með miklum ákafa eins og oddaleik sæmir, bæði lið mættu ofarlega á völlinn í vörninni og hraðinn í leiknum því þónokkur.  Valsmenn höfðu frumkvæðið framan af fyrsta leikhluta og höfðu yfir 12-10 þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður.  Skallagrímur komst yfir í fyrsta skiptið í stöðunni 18-19 eftir þrist frá Sigtryggi sem var þá kominn með 8 stig, jafn mikið og Jamie Stewart fyrir Valsmenn.  Skallagrímur hélt því eins stigs forskoti til loka fyrsta leikhluta, 21-22.  Leikmenn voru að spila af miklum ákafa og ljóst að það átti hvergi að gefa sentimetra eftir. 

 

Skallagrímur greip keflið á lofti í upphafi annars leikhluta með Jean Rony Cadet í broddi fylkingar og náðu mest 5 stiga forskoti í stöðunni 21-26.  Valsmenn svöruðu því um hæl með flottum kafla og 8 stigum í röð þangað til Finnur Jónsson tók leikhlé fyrir gestina, 29-26.  Leikhléið var ekki lengi að skila sér því Skallagrímur náði strax aftur forskotinu með 6 stigum í röð áður en Illugi Steingrímsson náði að svara fyrir val, 31-32.  Skallagrímsmenn kveiktu svo all hressilega í stuðningsmönnum sínum með einhverri svakalegustu hollí hú troðslu sem sést hefur á Hlíðarenda.  Sigtryggur lét boltan fljúga þremur skrefum fyrir utan þriggja stiga línuna og Jean Rony tók við henni hátt yfir hringnum og hamraði boltanum ofaní af öllumlífs og sálarkröftum, 31-39, og Valsmenn tóku leikhlé við mikinn fögnuð úr stúkunni.  Strax í kjölfarið á leikhléinu fékk Jamei Stewart dæmda á sig tæknivillu og ekki skánaði staða Valsmanna fyrir vikið.  Sigtryggur Arnar Björnsson kom svo Skallagrím í 11 stiga forskot stuttu seinna í stöðunni 42-31 og virtust gestirnir hreinlega ætla að valta yfir Val.  Sigtryggur hélt svo uppteknum hætti stuttu seinna og setti sinn fjórða þrist í fyrri hálfleik, 36-47, og Valsmenn tóku aftur leikhlé.  Varnarleikur Skallagríms í fyrri hálfleik var algjörlega til fyrirmyndar, þeir létu Valsmenn hafa mjög mikið fyrir hlutunum og þrátt fyrir mikla boltahreyfingu og langar sóknir tókst Valsmönnum sjaldan að finna skotin sem þeir vildu fá.  Forskot Skallagríms i hálfleik var því verðskuldað en þeir fóru inní klefa með 9 stiga forskot, 39-48.  

 

Stigahæstir í hálfleik í liði Skallagríms voru félagarnir Sigtryggur Arnar Björnsson og Jean Rony Cadet með 19 stig hvor, Jean Rony bætti einnig við 14 fráköstum og tveimur vörðum skotum, lína sem flestir væru stoltir af eftir heilan leik.  Næsti maður í liði Skallagríms var Hamid Dicko með 5 stig.  Í liði Vals var Jamie Stewart stigahæstur með 13 stig og 6 fráköst en næstu menn voru Illug Steingrímsson með 9 stig og Högni Fjalarsson með 8 stig.  

 

Valsmenn náðu örlítið að klóra í bakkan og komu forskoti gestanna niður í 7 stig eftir þrjár mínútur af leik í þriðja leikhluta.  Það var nokkuð fát á sóknarleik beggja liða og Jamie Stewart minnkaði muninn með glæsilegri troðslu, 45-52.  Finnur Jónsson tók leikhlé fyrir Skallagrím stuttu seinna þegar Illugi Steingríms var á leiðinni á línuna og forskot gestanna stóð í 6 stigum, 50-56.  Jamie Stewart fékk sína fjórðu villu stuttu seinna og þar af sína aðra sóknarvillu í leiknum og sat á bekknum það sem eftir lifði leikhlutans. Eftir nokkrar mínútur af jöfnum leik þar sem liðin skiptust á stigum setti Kristján Örn Ómarsson svakalega stóran þrist fyrir Skallagrím og kom þeim í 10 stiga forskot, 53-63, þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta.  Skallagrímur átti svo mun betri lokakafla á leikhlutanum og leiddu með 12 stigum þegar aðeins einn leikhluti var eftir, 57-69.  

 

Skallagrímur fylgdi eftir góðum kafla undir lok þriðja leikhluta og juku forskotið í 14 stig á upphafsmínútum þeim fjórða, 57-71.  Valsmenn áttu ótrúlega mörg skot á þessu tímabili sem skoppuðu af hringnum og einhver þreyta virtist vera komin í skot heimamanna sem höfðu þá pressað  gestina svo gott sem allan leikinn.  Benedikt Blöndal setti sín fyrstu stig í leiknum þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum og minnkaði muninn niður í 11 stig, 62-73.  Ágúst Björgvinsson tók leikhlé fyrir Valsmenn stuttu seinna í stöðunni 62-75. Skallagrímur gaf hvergi eftir á lokamínútunum og juku forskotið hægt og rólega.  Kristófer Gíslason kom þeim í 15 stiga forskot í stöðunni 65-80 sem Valsmenn svöruðu svo með næstu 5 stigum, 70-80.  Davíð Ásgeirsson fékk á sig óíþróttamannslega villu þegar hann rauk upp í hraðaupphlaup, tróð með látum en sveiflaði fætinum í andlitið á Illuga Steingrímssoni í leiðinni.  Valsmenn fengu því tækfæri til þess að minnka muninn enn frekar sem gekk þó brösulega.  Valsmenn reyndu hvað þeir gáut að minnka forskotið og gera þetta að leik en það gekk einfaldlega of hægt.  Finnur Jónsson tók leikhlé þegar ein mínúta var eftir og forskotið komið niður í 7 stig, 77-84.  Skallagrímur sigldi svo sigrinum heim með yfirveguðum leik á lokasekúndunum og leika því til úrslita um sæti í úrvalsdeild að ári við Fjölni.  

Myndasafn – Torfi Magnússon

Umfjöllun: Gísli Ólafsson

Mynd: Torfi Magnússon

Fréttir
- Auglýsing -