Skallagrímur sýndi sama kraft og nafni sinn frá Borg - Karfan
spot_img
HomeBikarkeppniSkallagrímur sýndi sama kraft og nafni sinn frá Borg

Skallagrímur sýndi sama kraft og nafni sinn frá Borg

Grindavík leikur til úrslita í Geysisbikar karla en liðið vann Fjölni í seinni undanúrslitaleik dagsins.

Gangur leiksins:

Borgnesingar mættu margfalt ákveðnari til leiks og náðu snemma forystunni. Þær náðu fljótlega yfir tíu stiga forystu og komst hún nær tuttugu stigum á tímabili í fyrri hálfleik. Skallagrímur fékk mikið af tækifærum sóknarlega sem liðið nýtti frábærlega. Keira Robinson fór algjörlega fyrir sínum konum og var með 26 stig Skallagríms í hálfleik. Staðan í hálfleik var 49-38 fyrir Skallagrím.

Haukar náðu frábæru áhlaupi í þriðja leikhluta til að jafna leikinn. Því svöruðu Borgnesingar um hæl og komu sér aftur í tæplega tíu stiga forystu fyrir loka fjórðunginn.

Einhverjir hefðu búist við því að lítil breidd Skallagríms hefði dregið af liðinu í fjórða leikhluta. Svo varð aldeilis ekki heldur gáfu Borgnesingar bara í. Haukum gekk illa að koma með almennileg áhlaup til að minnka muninn almennilega á meðan Skallagrímur setti öruggar körfur. Lokastaðan 86-79 fyrir Skallagrím sem er á leið í úrslit bikarsins.

Hetjan:

Keira Robinson var algjörlega mögnuð í þessum leik, ekki nóg með að hún setti 44 stig þá stýrði hún leik Skallagríms vel. Tók yfirleitt réttar ákvarðanir, sérstaklega þegar kom að hraða leiksins. Þá er erfitt að ganga fram hjá Emilie Hasseldal sem daðraði við fernuna með 27 stig, 10 fráköst, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta.

Kjarninn:

Skallagrímur eru vel að sigri kvöldsins komnar. Liðið einfaldlega var skynsamara í sínum aðgerðum og framkvæmdi vel á báðum endum vallarins. Borgnesingar voru einungis með þrjá tapaða bolta fyrir fjórða leikhluta og fóru sérstaklega vel með boltann. Liðið hitti virkilega vel og leiddi í 39 mínútur leiksins, því er sigur kvöldsins verðskuldaður.

Haukarnir geta nagað sig í handabökin eftir leik kvöldsins. Liðið kom flatt til leiks og átti erfitt með að koma til baka eftir það. Margir leikmenn lenntu í villuvandræðum og þurftu því að sitja á bekknum lengi. Randi Brown átti ekki sinn besta leik, aðgerðir hennar voru á tímabili tilviljanakenndar og kom lítið útúr henni þegar virkilega á þurfti. Haukum hreinlega skorti áræðni í leiknum og fór einungis þrettán sinnum á vítalínuna gegn 37 vítaskotum Skallagríms.

Skallagrímur er komið í annað sinn í úrslitaleik bikarsins í sögunni en síðast var liðið þar árið 2017. Úrslitaleikurinn fer fram á laugardaginn kl 16:30. Andstæðingurinn verður KR og er von á frábærum úrslitaleik.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)

Viðtöl eftir leik:

Fréttir
- Auglýsing -