Baráttan um sæti í Dominos deild karla hélt áfram í kvöld þegar Valur tók á móti Skallagrím í úrslitakeppni 1.deildar. Valur hafði unnið fyrstu tvo leiki einvígisins og hefðu því getað tryggt sig í úrslitaeinvígið gegn Fjölni eða ÍA.
Valur spilaði án Illuga Auðunssonar sem hefur spilað stórt hlutverk í liðinu í vetur en Skallagrímur var fullmannað. Eftir dapra byrjun á leiknum þar sem staðan var 2-2 eftir fjórar mínútur setti gestirnir í gír og náðu átta stiga forystu. Það var mikil stemmning í liði Skallagríms sem fagnaði hverri körfu vel. Liðið spilaði svæðisvörn sem Valur átti erfitt með að finna svör við.
Sóknarleikur Vals var stirður framan af og voru þeir að reyna mjög erfiða hluti. Með réttu hefði Skallagrímur átt að hafa stærri forystu eftir fyrsta fjórðung en þeir fengu ítrekað opin skot sem þeir nýttu mjög illa. Fyrir vikið gekk Valur á lagið og minkaði muninn í 14-16.
Valur kom sterkara til leiks í öðrum fjórðung og leikurinn varð fljótt jafn. Skallagrímur náði aftur sjö stiga forystu þar sem Sigtryggur Arnar virtist geta skorað að vild. Valur greip þá til sömu ráða og og Skallagrímur, skipti yfir í svæðisvörn og má segja að Skallagrímur hafi fallið á eigin triki. Skallagrímsmenn voru hreinlega eins og þeir hafi aldrei spilað á móti svæðisvörn því þeir voru gjörsamlega útá þekju í nokkrar mínútur.
Valur komst þá yfir í fyrsta skiptið í leiknum og var stemmningin algjörlega þeirra megin. Sigtryggur Arnar var aftur á móti ekki á sama máli og setti tvær þriggja stiga körfur í röð sem hann bjó til sjálfur. Þetta kom Skallagrím yfir fyrir hálfleik 36-34 og mátti eiga von á spennandi seinni hálfleik.
Gæði körfuboltans í fyrri hálfleik voru ekki mikil, mikið um tapaða bolta, slakar sendingar og klúður úr galopnum skotum. Ekki það sem maður vill sjá í úrslitaviðureignum en spennustigið var bersýnilega hátt.
Skallagrímur byrjaði leikinn með látum, settu tvö þriggja stiga skot snemma og náðu fínni forystu. Saga leiksins var þó hversu ofboðslega kaflaskiptur hann var því Valur kom aftur til baka og komust yfir um miðbik þriðja fjórðungs.
Valur spiluðu stöðugri leik og náðu sér í góða fimm mínútna forystu fyrir síðasta fjórðunginn. Óskynsemin lak af spilamennsku Skallagríms sem tapaði mörgum boltum, skutu ótímabærum skotum og fengu á sig klaufalegar villur. Valur aftur á móti óx mjög eftir því sem leið á leikinn og höfðu átta stiga forystu þegar átta mínútur voru eftir.
Leikurinn hélt áfram að snúast á báða vegu út leikinn og var í raun bara spurning um hvort liðið hefði stemmninguna og augnablikið með sér á lokametrunum. Lokamínútur leiksins voru æsispennandi þar sem jafnt var á öllum tölum.
Skallagrímur fékk tæki færi að komast yfir þegar 45 sekúndur voru eftir af leiknum en Jean Cadet fór með boltann útaf, einstaklega klaufalegt. Benedikt Blöndal fékk svo tækifæri á að koma Val í þriggja stiga forystu en skot hans geigaði. Það var svo Sigtryggur Arnar sem bjó til lokakörfu leiksins þegar einungis 8,7 sekúndur voru eftir af honum og tryggði Skallagrím sigur.
Grimmdin og viljinn til að vinna leikinn var yfirsterkari hjá Skallagrím í leiknum og var það helst sem skóp sigur kvöldsins. Leikurinn var fullur af mistökum og tækifærum á báða bóga til að gera útum leikinn en hvorugt liðið nýtti sér það en sigurinn gat fallið báðu megin.
Sigtryggur Arnar var maður leiksins en hann var með 28 stig og dróg lið Skallagríms áfram. Gaman var að sjá að hann reif upp stemminguna í liðinu ítrekað í leiknum og var ásetningur hans að vinna leikinn greinilegur frá fyrstu mínútu. Jean Cadet var einnig með myndarlega tvennu eða 23 stig og 15 fráköst, ofan á það tapar hann fimm boltum í leiknum og flestir voru þeir á stórum augnablikum.
Hjá Val var Benedikt Gröndal með 24 stig og átti flottann leik, auk þess átti Jamil Steward jr. ágætis leik með 15 stig en hann var fljótlega komin í villuvandræði og virkaði hálf einbeitingarlaus á tímabili.
Sigur þessi kveikir von í Skallagrímsmönnum þar sem þeir geta jafnað einvígið í Fjósinu á fimmtudaginn. Valur vann hinsvegar fyrri leikinn í Borgarnesi sem gefur þeim trú á að verkefnið sé ekki óvinnandi.
Myndir úr leiknum frá Torfa Magnússyni
Viðtöl eftir leikinn:
Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson
Myndir / Ómar Örn og Torfi Magnússon