spot_img
HomeBikarkeppniSkallagrímur sigldi skyldusigri í höfn í Seljaskóla

Skallagrímur sigldi skyldusigri í höfn í Seljaskóla

Seinasti leikur í 8-liða úrslitum Geysisbikars kvenna var spilaður í kvöld í Hertz-hellinum í Seljaskóla milli ÍR og Skallagríms. ÍR sat í þriðja sæti 1. deildar kvenna á meðan að Skallagrímur var í því fjórða í úrvalsdeild kvenna. Aðstoðarþjálfari ÍR hafði sagt fyrir leikinn að þetta yrði ágætur leikur fyrir liðið til að máta sig við efstu deildina.

ÍR-ingar tóku forystuna með glæsilegri sókn á fyrstu mínútunni. Skallagrímskonur voru hins vegar fljótar að svara í næstu sókn og settu fljótlega nokkur auðveld skot. ÍR sá sig tilneytt til að taka leikhlé í stöðunni 2-8.

ÍR-ingar komu einbeittari inn eftir leikhléið og áður en þrjár mínútur voru liðnar höfðu þær jafnað í 10-10! Nína Jenný Kristjánsdóttir setti m.a. tvo stóra þrista í röð!

Þá herti Skallagrímur sig og tók 7-0 áhlaup. Það virtist eins og stelpurnar úr Breiðholti væru góðar þegar að þær ofhugsuðu ekki hlutina. Eftir tæpan kafla hjá heimastúlkunum lauk fyrsta leikhluta 12-22, Skallagrím í vil.

ÍR hélt áfram að reyna stríða Skallagrím en munurinn var áfram tíu stig eftir fimm mínútur spilaðar í öðrum leikhluta. Heimastúlkur hættu samt ekki og ef Skallagrímskonur gleymdu sér í vörninni voru Breiðhyltingar vísir til að skora.

Borgnesingar tóku snarpt áhlaup á lokametrum fyrri hálfleiksins til að skilja sig betur frá heimamönnum og leiddu með 17 stigum eftir 20 mínútur, 23-40.

Skallagrímur hélt áfram að rúlla og gátu yfirleitt skorað tvær körfur fyrir hverja eina sem að ÍR skoraði. ÍR hélt áfram að spila allan leikinn og náðu nokkrum flottum körfum, en Skallagrímur var komið of langt fram úr til að það breytti nokkru.

Svo fór að lokum að Skallagrímur vann þægilegan sigur á ÍR-ingum, 51-86.

Hvað vann leikinn?

Lykillinn að sigri Skallagrímskvenna var þriggja stiga nýtingin þeirra. Þær hittu vel úr þristunum sínum (13/31, 41.9% nýting fyrir utan þriggja stiga línuna) og fengu yfirleitt opin skot.

Þar að auki gátu ÍR-ingar illa passað upp á boltann og fengu færri sóknir til að vinna úr vegna þess. Skallagrímur skoraði einmitt 22 stig úr töpuðum boltum ÍR-inga, sem urðu 27 á heildina.

Úrvalsdeildarliðið var hreinlega betra í aðgerðum sínum.

Lykillinn

Tvær í Skallagrím stóðu upp úr eins og svo oft áður, Emilie Sofie Hesseldal og Keira Robinson. Keira skoraði 21 stig, tók 7 fráköst, gaf 6 stoðsendingar, stal 3 boltum og fjóra þrista í átta tilraunum (4/8, 50% nýting). Emilie skoraði 10 stig, tók 12 fráköst, gaf 5 stoðsendingar, stal 4 boltum og varði 3 skot.

Næst á dagskrá

Þá er ljóst hvaða fjögur lið fara í Laugardalshöllina í undanúrslit Geysisbikars kvenna. Það verða KR, Valur, Haukar og Skallagrímur.

Næst mun ÍR mæta í Hveragerði á laugardaginn 25. janúar til að takast á við Hamar í deildarkeppni 1. deildarinnar.

Skallagrímur mætir næst nágrönnum sínum í Snæfell í Stykkishólmi fimmtudaginn 23. janúar.

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Þorsteinn Eyþórsson

Viðtöl eftir leik

Sigrún Sjöfn: Vissum að þær myndu mæta tilbúnar
Ólafur Jónas: Alltaf gaman að máta sig við úrvalsdeildarlið
Fréttir
- Auglýsing -