Liðin í efstu deilum landsins eru á fullu þessa dagana að undirbúa sig fyrir komandi átök. Nokkur fjöldi af æfingaleikjum eru í gangi og er spennandi að sjá hvernig liðin koma undan sumri.
Fyrr í dag tóku nýliðar KR á móti Skallagrím í undirbúning sínum fyrir komandi leiktíð í Dominos deild kvenna. Borgnesingar eru með breytt lið frá síðustu leiktíð og því spennandi að sjá hvernig liðin komu til leiks í dag.
Litlu munaði á liðunum framan af og var KR sterkara í fyrri hálfleik. Borgnesingar náðu þó forystunni í seinni hálfleik og gáfu hana ekki eftir. Lokastaðan var 60-67 fyrir Skallagrím.
Bryeasha Blair var stigahæst í liði Skallagríms með 24 stig, þá var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með 18 stig og Shequila Joseph með 14 stig. Líkt og fyrr á undirbúningstímabilinu er breiddin ekki mikil í liði Skallagríms en enn vantar Ines Kerin í lið Borgnesinga.
KR-ingar dreifðu mínútunum jafnt á milli leikmanna og dreifðist því stigaskor liðsins mikið. Kiana Johnson var stigahæst hjá KR 17 stig.
Ert þú með úrslit úr æfingaleik? Endilega sendu okkur línu á [email protected]