Grindavíkurstúlkur sem töpuðu síðustu tveimur leikjum illa, fyrst á móti botnliði deildarinnar á þeim tímapunkti, Breiðabliki og svo mjög stórt gegn hinu geysisterka liði Vals, mættu nýkrýndum bikarmeisturum Skallagríms í 23. umferð Dominosdeildarinnar í kvöld.
Undirritaður leit á þennan leik sem “must-win” fyrir Grindavík en Breiðablik er sigurleik á undan þeim á botni deildarinnar og segir mér svo hugur til að Blikar muni næla í einn sigur hið minnsta áður en liðin mætast í lokaleik deildarkeppninnar. Breiðablik með 15 stiga betri innbyrðisstöðu en kristalskúlan mín spáir hreinum úrslitaleik milli liðanna í lokaumferðinni, þ.e. að Grindavíkurstúlkur þurfi að vinna þann leik með 15+ en fyrst þurfa og þurftu þær auðvitað að landa sigri. Of mikið samt eftir til að reyna gerast spámaður í eigin föðurlandi….
Fyrsti leikhluti var ansi jafn og munaði bara 2 stigum eftir hann, 19-17 fyrir heimastúlkur. Stigaskorunin dreifðist systurlega á milli heimastúlkna en hin danska Mathilde Colding-Poulsen með 10 stig og Keira Breanne Robinson með 5 drógu Vesturlandsvagninn.
Sama barátta var í 2. leikhluta og en gestirnir unnu leikhlutann með 3 stigum og leiddu því með 1 í hálfleik, 34-35. Áfram skemmtilega mikil dreifing á stigaskori heimakvenna en Bríet var sú eina sem var komin yfir 10-stiga múrinn, með akkurat 10 stig. Jordan með 8 og Hrund + Elísabet með sitthvor 5 stigin. Þrír leikmenn með 2 stig.
Hjá Sköllunum fór hin danskan, Emilie Sofie Hesseldal af stað og var komin með 8 stig en Mathilde var áfram stigahæst, með 13 og Keira með 7.
M.v. hvernig 3. leikhluti var þá var ljóst að hjartveikir þyrftu að taka sprengitöflur en Skallarnir unnu leikhlutan með 2 og leiddu því með 3 fyrir lokaorrystuna. Jordan steig upp í stigaskoruninni hjá Grindavík og var komin með 15 en hinum megin fór stigaskorið að dreifast betur en Mathile áfram hlutskörpust með 16.
Skallastelpur sýndu síðan mátt sinn og megin í lokaleikhlutanum en slæm 3-stiga hittni varð Grindavíkurstúlkum að falli í leikhlutanum en ég held að þær hafi ekki hitt úr einum einasta þrist í honum. Lokatölur 66-76 en lokaleikhlutinn segir í raun sögu kvöldsins, 12-19. Í leiðinni lýsir hann nokkuð vel tímabilinu eftir áramót hjá Grindavík.
Langbest heimastúlkna var Jordan sem var 1 stoðsendingu frá þrefaldri tvennu (19 stig, 22 fráköst og 9 stoðsendingar). Þriggja stiga nýting hennar samt slöpp, eins og hjá öllu Grindavíkurliðinu en þær hittu einungis úr 6/34 sem gerir 17% nýting. Erfitt að vinna leiki með þannig nýtingu.
Þær sköllóttu hristu af sér veikindaslenið í lokaleikhlutanum og sigldu sigrinum í höfn og þvert á spár þess sem þetta skrifar, þá varð leikurinn ekki þessi naglbítur sem allt stefndi í. Þær eru áfram í blóðugri baráttu um síðasta sætið í úrslitakeppninni og verður fróðlegt að fylgjast með gangi mála í því. Þeirra best var Keira með 36 í framlag (21 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar) en Emilie skilaði líka flottu framlagi eða 30 (17 stig, 8 fráköst og 10 stoðsendingar).
Viðtöl eftir leik: