spot_img
HomeFréttirSkallagrímur hitti á toppleik á Króknum

Skallagrímur hitti á toppleik á Króknum

9:30

{mosimage}

Tindastóll tók í kvöld á móti Vali Ingimundarsyni og lærisveinum hans í Skallagrími. Skallagrímur fyrir leikinn í þriðja sæti og verið á ágætis siglingu, en Stólarnir tapað tveimur síðustu leikjum og þurftu að hysja upp um sig buxurnar. Byrjunarliðin voru: Lamar, Ingvi, Svavar, Ísak og Vlad fyrir Tindastól, en Axel, Dimitar, Finnur, Jovan og Darrel fyrir gestina.

 

Það var greinilegt í byrjun að heimamenn komu ákveðnir til leiks. Þó að Dimitar skoraði fyrstu þrjú stigin í leiknum fyrir Skallagrím úr vítum voru Stólarnir fljótlega komnir yfir 10-5. Í stöðunni 17-14 skoruðu Stólarnir 7 stig í röð og Valur Ingimundar tók leikhlé til að skipuleggja leik sinna manna. Það virkaði í smá tíma en svo bættu heimamenn í og staðan eftir fyrsta fjórðung 33-22 fyrir Tindastól. Leikurinn mjög hraður og skemmtilegur og heimamenn virtust vera komnir til að selja sig dýrt.
Í öðrum leikhluta var greinilegt að Skallagrímur átti líka eitthvað í pokahorninu því þeir skutu sig jafnt og þétt inn í leikinn og settu niður 6 þrista í fjórðungnum. Þeir komust yfir 37-41 en Stólarnir voru ekki á því að láta þá sleppa frá sér og hengu í þeim til leikhlés, en þá var hnífjafnt 57-57. Eins og sést á skorinu var sóknin í fyrirrúmi og varnarleikurinn oft gloppóttur í fyrri hálfleik.
Síðari hálfleikur byrjaði með látum af hálfu Jovan Skallagrímsmanns, hann setti niður tvo þrista á rúmri mínútu í upphafi hans og Flake tvist á milli. Staðan 57-66 og Kiddi tók leikhlé fyrir Stólana til að finna svar. Skallagrímur lét það ekki slá sig út af laginu og skoruðu tvo þrista í kjölfarið, á meðan heimamenn skoruðu fjögur stig. Skallarnir bættu við tveimur stigum og munurinn orðinn allt í einu 13 stig, 61-74. Þennan mun náði Tindastóll aldrei að brúa það sem eftir var leiksins. Skallagrímur náði mest 16 stiga forskoti 74-90 í upphafi síðasta leikhluta og þó að Stólarnir næðu því niður í tíu stig þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka og Darrel Flake kominn út af með 5 villur var það of seint og Skallarnir náðu muninum aftur í 16 stig áður en lokaflautið gall. Niðurstaðan 94-110. Skallagrímsmenn voru að hitta frekar vel í kvöld og þá sérstaklega úr þristunum og virtist boltann sogast ótrúlega niður í körfuna frá þeim. Stólarnir spiluðu vel í fyrri hálfleik, en síðan fjaraði undan þeim og Skallagrímur gekk á lagið og innbyrti sanngjarnan sigur. Það var nokkur hiti í leikmönnum á köflum í leiknum, en dómarar leiksins tóku það föstum tökum og þeir Erlingur Snær og Eggert áttu ágætis kvöld þrátt fyrir að heimamönnum þætti Valur Ingimundarson komast upp með óþarflega mikið röfl í leiknum. Stigahæstir Tindastóls voru Zeko með 26 stig, Svavar 19 og Ísak 18 stig. Zeko átti fínan leik í kvöld og með stigunum 26 tók hann 9 fráköst. Ísak var að vanda traustur og Svavar átti þokkalegustu spretti. Hjá Skallagrími voru það Dimitar og Jovan sem voru stigahæstir. Dimitar með 25 og Jovan 24. Næstur kom Pétur Sigurðsson með 22 stig. Jovan var illviðráðanlegur fyrir utan þriggjastiga línuna í kvöld og skoraði úr sex af sjö skotum sínum þaðan.
Nokkrar tölur úr leiknum: 4-5, 12-7, 17-12, 24-14, 33-22, 37-32, 43-41, 47-47, 53-52, 57-57, 59-66, 61-74, 67-77, 72-83, 76-92, 84-95, 90-100, 94-110

 

www.skagafjordur.net/karfan

 

Mynd: www.skagafjordur.net/karfan

Fréttir
- Auglýsing -