ÍA hefur sagt upp samningi sínum við Lorenzo Lee McClelland en leikmaðurinn þótti ekki rétta púslið í leikmannamynd ÍA eins og segir í frétt á heimasíðu Skagamanna.
Á heimasíðu ÍA segir:
Körfuknattleiksfélag ÍA hefur sagt upp samningi félagsins við Lorenzo Lee McClelland og var sigurleikur ÍA gegn Augnablik því hans síðasti leikur fyrir félagið.
Lorenzo gekk til liðs við ÍA undir lok síðasta keppnistímabils og spilaði einn deildarleik auk þess að spila alla fimm leiki liðsins í úrslitakeppninni. Hann skoraði að meðaltali 19,5 stig, tók 5 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.
Á þessu tímabili hefur Lorenzo spilað alla átta deildarleiki liðsins auk eins leiks í bikarkeppninni og hann hefur skorað 20,5 stig, tekið 6,6 fráköst og gefið 5 stoðsendingar að meðaltali í deildarkeppninni.
Þrátt fyrir þetta framlag Lorenzo þá var hann því miður ekki rétta pústlið inn í leikmannamyndina en liðið er í 8. sæti í 1. deild með einn sigurleik og sjö tapleiki auk þess að vera dottið út úr bikarkeppninni.
Lorenzo er strákur góður, jafnt innan sem utan vallar, og kunnum við honum bestu þakkir fyrir samstarfið og óskum við honum alls hins besta í framtíðinni. Hans verður alltaf minnst hjá félaginu fyrir það sem hann afrekaði með okkur og þykir stjórn félagsins sárt að samstarf okkar hafi endað svona. En hagsmunir félagsins er það sem er númer 1, 2 og 3 og við ætlum okkur ekki að vera í botnbaráttu og vonandi náum við að snúa blaðinu við.
Það er ekkert klárt með það hvort það verði fenginn annar erlendur leikmaður til liðsins, tíminn verður að leiða það í ljós.
Mynd úr safni/ [email protected]: Lorenzo í leik með ÍA í úrslitum 1. deildar gegn Skallagrím á síðustu leiktíð.