Sigur Snæfells á Þór úr Þorlákshöfn í bikarnum var nokkru verði keyptur eins og flestir sigrar þegar úrvalsdeildarlið eigast við. Jón Ólafur Jónsson leikmaður Snæfells fékk að kenna á því í leiknum gegn Þór en í öðrum leikhluta fékk hann högg á höfuðið með þessum afleiðingum eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
Sauma þurfti sjö spor í kollvik Jóns sem meiddist í öðrum leikhluta en kláraði engu að síður leikinn. Samkvæmt okkar heimildum var kappinn teipaður og hélt svo áfram og lauk leik með 11 stig. Það mun hafa verið Gunnlaugur Smárason sem sá um ,,límingarnar” og þar hafi Hansaplast-teipið staðið sig í stykkinu en faglegum frágangi hafi svo verið komið við á heilsugæslustöðinni í Hólminum.
Jólamyndirnar verða a.m.k. eftirminnilegar þetta árið í Jóns-húsi í Hólminum.
Mynd/ Ingi Þór Steinþórsson: Þjálfarinn stóðst ekki mátið og tók mynd af áverkum eins helsta máttarstólpa síns en Ingi þykir afbragðsgóður ljósmyndari þá þegar hann tekur sig til.