spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaSjö leikmenn Þórs lögðu vængbrotið lið Grindavíkur

Sjö leikmenn Þórs lögðu vængbrotið lið Grindavíkur

Þór Akureyri lagði Grindavík í Smáranum í 12. umferð Bónus deildar kvenna í kvöld, 64-84.

Eftir leikinn er Þór í 2. til 3. sæti deildarinnar með 16 stig líkt og Njarðvík, en Njarðvík á þó leik til góða í kvöld gegn Tindastóli. Grindavík er aftur á móti öllu neðar í töflunni, í 8. til 10. sætinu með 6 stig.

Fyrir leik

Gengi Grindavíkur fyrir áramótin ekki upp á marga fiska. Höfðu unnið aðeins þrjá leiki af ellefu og höfðu samkvæmt heimildum fyrir leik dagsins sagt upp samningum við tvo erlenda atvinnumenn sína. Þá vantaði einnig Isabellu Ósk Sigurðardóttur í lið þeirra í dag.

Þór aftur á móti hafði gert ágætlega í fyrr umferð deildarkeppninnar. Unnu sjö af ellefu og voru í 3. til 5. sæti deildarinnar. Þá vantaði einnig nokkra leikmenn í hóp Þórs í kvöld, þar sem þær voru aðeins sjö mættar gegn níu leikmönnum Grindavíkur.

Gangur leiks

Líkt og við var að búast voru gestirnir frá Alkureyri með góð tök á leiknum í upphafi. Komust í góða forystu, 2-20, strax á upphafmínútunum. Grindavík náði aðeins að rétta hlut sinn fyrir lok fyrsta fjórðungs, en Þór þó með þægilega forystu, 9-26.

Undir lok fyrri hálfleiks nær Þór að láta kné fylgja kviði, bæta við forskot sitt og eru með gífurlega gott bil á milli sín og heimakvenna þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 21-45.

Stigahæst fyrir Grindavík í fyrri hálfleiknum var Hulda Björk Ólafsdóttir með 6 stig. Fyrir Þór var Esther Fokke stigahæst með 15 stig.

Það er aðeins meiri hugur í Grindavík í upphafi seinni hálfleiksins. Aldrei þó þannig að þær hóti því beint að komast inn í leikinn. Munurinn enn 25 stig fyrir lokaleikhlutann, 39-64. Úrslitin að er virtist að öllu leyti ráðin þegar í fjórða fjórðung var komið. Að lokum nær Grindavík aðeins að laga stöðuna, en sigur Þórs er þó að lokum öruggur, 64-84.

Kjarninn

Án Isabellu, kana og Katarzyna (sem fór til Stjörnunnar á dögunum) er óhætt að segja að leikur Grindavíkur hafi verið hvorki fugl né fiskur. Þær þurfa að bæta í ef ekki á illa að fara, því það er nokkuð ljóst að ef þetta á að vera liðið þeirra í vetur, þá falla þær. Þessi hópur er einfaldlega ekki nógu sterkur.

Staðfesti þjálfari Grindavíkur Þorleifur Ólafsson það við Körfuna eftir leik að í stað þeirra tveggja atvinnumanna sem liðið hafi sagt upp samningum við á dögunum væru tveir á leiðinni. Sagði hann ennfrekar að hann hafi gefið sér tíma í að velja nýja leikmenn, sem vonandi yrðu komnir af stað með liðinu um miðjan mánuðinn.

Að sama skapi má hrósa sjö leikmönnum Þórs, sem mættu ágætlega til leiks. Gerðu það sem þurfti til þess að koma í veg fyrir að þetta yrði nokkurntíman leikur. Skyldusigur, sem þær geta unað sáttar við að hafa klárað vandræðalaust.

Atkvæðamestar

Madison Sutton var best í liði Þórs í kvöld með 4 stig og 26 fráköst. Þá skilaði Esther Fokke 24 stigum og 6 fráköstum.

Í liði Grindavíkur var Ólöf Rún Óladóttir atkvæðamest með 22 stig og 10 fráköst. Henni næst var Sofie Tryggedsson með 9 stig og 11 fráköst.

Hvað svo?

Grindavík á leik næst komandi þriðjudag 7. janúar heima í Smáranum gegn Hamar/Þór. Þór leikur degi seinna miðvikudag 8. janúar gegn Keflavík heima í Höllinni á Akureyri.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -