Sverrir Þór Sverrisson og Hörður Axel Vilhjálmsson fóru fyrir Keflvíkingum í kvöld þegar þeir lönduðu sínum sjöunda deildarsigri í röð. Keflavík tók á móti Grindavík í Toyota-Höllinni í Suðurnesjaslag og höfðu Keflvíkingar betur 97-89 þar sem Sverrir Þór Sverrisson bauð upp á flautukörfu frá miðju í lok leiks. Hinsvegar eru tapleikir Grindavíkur orðnir fjórir talsins á tímabilinu og bjuggust eflaust flestir við því að gulum myndi ganga talsvert betur í deildinni en raun ber vitni.
Þröstur Leó Jóhannsson kom Keflavík í 11-6 með þriggja stiga körfu snemma leiks og Hörður Axel fór einnig mikinn fyrir heimamenn. Vörn Grindavíkur var ekki upp á marga fiska enda fengu þeir á sig 29 stig í fyrsta leikhluta þar sem Keflavík leiddi 29-20. Hörður Axel var með 13 stig eftir fyrsta leikhluta þar sem hann m.a. tróð með tilþrifum.
Jón N. Hafsteinsson var ekki lengi að næla sér í sína þriðju villu hjá Keflavík í öðrum leikhluta en hann komst lítið í takt við leik kvöldsins. Rashon Clark var fremur passífur í fyrri hálfleik en átti eftir að láta til sín taka í þeim síðari. Clark átti þó fína rispu er hann varði í tvígang skot frá Grindvíkingum og kom svo með þrist og breytti stöðunni í 37-23 Keflavík í vil.
Þegar hér var komið við sögu náðu Keflvíkingar sínum mesta mun í leiknum eða 19 stigum í stöðunni 42-23 eftir að Sverrir Þór hafði skorað í teig Grindavíkur og fengið villu að auki. Gestirnir úr Grindavík náðu þó að bíta aðeins frá sér þegar Darrell Flake vaknaði á blokkinni.
Grindvíkingar náðu að koma muninum undir 10 stig fyrir hálfleik 52-44 en þeirra helsta mein var hriplek vörn í fyrri hálfleik gegn baráttuglöðum og einbeittum Keflvíkingum.
Hörður Axel var kominn með 19 stig fyrir Keflavík í hálfleik og Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 12 en í liði Grindavíkur var Darrell Flake kominn með 17 stig.
Brenton Birmingham opnaði síðari hálfleik með þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 52-47 en hann hafði ansi hægt um sig í fyrri hálfleik með aðeins þrjú stig. Keflvíkingar gerðu næstu sex stig í röð og Grindvíkingar svöruðu með öðru áhlaupi er þeir gerðu sjö stig í röð og staðan orðin 58-54.
Í þriðja leikhluta tókst Grindavík að komast yfir 60-61 en Keflvíkingar voru sjaldan langt undan og voru fljótir að ná forystunni til baka. Slíkt gerði t.d. Sverrir Þór Sverrisson þegar 55 sekúndur lifðu af þriðja leikhluta er hann smellti niður þrist og breytti stöðunni í 67-65 fyrir Keflavík. Keflvíkingar fengu síðar eitt víti en Þorleifur Ólafsson átti lokaorðið fyrir gestina með teigskoti og minnkaði muninn í 68-67 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða leikhluta.
Hörður Axel skoraði ekki stig í þriðja leikhluta en Keflvíkingar hafa djúpt á sínu liði og t.d. steig Sverrir Þór rækilega upp í kvöld sem og Rashon Clark í síðari hálfleik. Brenton Birmingham komst loks af stað í seinni hálfleik fyrir gestina og gerði 10 stig í þriðja leikhluta.
Fjórði leikhluti var æsispennandi og sveiflukenndur þar sem liðin skiptust nokkrum sinnum á forystunni. Sverrir Þór hrelldi gesti sína með vel tímasettum og stundum erfiðum þriggja stiga körfum en hann setti niður 5 af 7 þriggja stiga skotum sínum í kvöld. Flake var erfiður á blokkinni og fór mikið púður hjá Keflavík í að halda aftur af honum, sér í lagi hjá Sigurði Gunnari Þorsteinssyni sem fyrir vikið beitti sér fremur lítið í sóknarleik Keflavíkur í síðari hálfleik.
Gunnar Einarsson gerði mikilvæg stig fyrir Keflavík í teignum er hann kom sínu liði í 86-82 þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka. Skömmu síðar skoraði Flake fyrir Grindavík og fékk víti að auki sem hann setti niður og staðan 89-87 Keflavík í vil.
Keflvíkingar fóru illa að ráði sínu þegar hálf mínúta var til leiksloka en þá fékk Hörður Axel dæmt á sig skref en hann átti eftir að bæta það rækilega upp. Grindvíkingar héldu í sókn og Flake fékk boltann og hélt upp að körfunni en þá kom Hörður Axel aðvífandi og varði skot hans með glæsibrag. Fantagóð vörn sem eiginlega setti leikinn endanlega upp í hendur Keflavíkur.
Grindvíkingar náðu að minnka muninn í 91-89 þegar 18 sekúndur lifðu af leiknum og brutu síðan strax á Herði Axel sem setti aðeins niður annað vítið og staðan 92-89 þegar 17 sekúndur voru eftir.
Gestirnir héldu í sókn og Páll Axel Vilbergsson fékk boltann í hægra horninu fyrir utan þriggja stiga línuna og lét vaða á körfuna þegar fimm sekúndur voru eftir. Skotið geigaði og Keflvíkingar náðu frákastinu og þar með sigrinum. Nokkur vítaskot litu dagsins ljós undir lokin en Sverrir Þór Sverrisson rak smiðshöggið með sirkuskörfu er hann setti niður flautukörfu frá miðju við mikinn fögnuð áhorfenda, hann fékk samt ekki flugmiða með Iceland Express fyrir vikið!
Þrír leikmenn í liði Keflavíkur gerðu 20 stig eða meira í kvöld en þeirra atkvæðamestur var Hörður Axel með 22 stig og 5 fráköst en Rashon Clark og Sverrir Þór voru báðir með 21 stig. Clark var einnig með 11 fráköst og Sverrir Þór með 6 stoðsendingar. Þeir Þröstur Leó, Sigurður Gunnar og Gunnar Einarsson áttu allir fínar rispur.
Hjá Grindavík var Darrell Flake í sérflokki með 31 stig og 7 fráköst en honum næstur var Brenton Birmingham með 17 stig. Páll Axel Vilbergsson gerði 13 stig og tók 13 fráköst og Þorleifur Ólafsson lét annað veifið í sér heyra með 11 stig.