spot_img
HomeFréttirSjáðu æsispennandi lokamínútur framlengingar er Ísland lagði Austurríki með minnsta mun mögulegum

Sjáðu æsispennandi lokamínútur framlengingar er Ísland lagði Austurríki með minnsta mun mögulegum

Undir 18 ára lið Íslands lagði Austurríki í framlengdum leik með minnsta mun mögulegum, 89-88, í öðrum leik sínum á Evrópumótinu í Ploiesti í Rúmeníu. Liðið hefur því unnið einn og tapað einum þegar fyrstu tveir leikir riðlakeppninnar eru að baki.

Segja má að liðin hafi skipst á áhlaupum í leik dagsins þar sem Austurríki leiddi bróðurpart fyrri hálfleiks, en í seinni hálfleik var það Ísland sem var með ágætis stjórn á leiknum. Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikurinn þó hnífjafn undir lokin og þurfti því að framlengja að lokum venjulegt leiktíma í stöðunni 76-76. Undir lok framlengingarinnar var það þristur frá Báru Björk Óladóttur sem innsiglaði sigurinn fyrir Ísland þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka. Með honum komst Ísland í stöðuna 89-82 og var það hreinlega of mikið fyrir Austurríki til þess að vinna niður á svo stuttum tíma.

Atkvæðamest fyrir Ísland í leiknum var Kolbrún María Ármannsdóttir með 25 stig, 14 fráköst og 5 stolna bolta. Þá skilaði Anna María Magnúsdóttir 20 stigum, 5 fráköstum, 4 stoðsendingum og Fjóla Gerður Gunnarsdóttir 13 stigum og 9 fráköstum.

Íslenska liðið fær nú tveggja daga frí og á leik næst komandi miðvikudag 7. ágúst gegn Tékklandi.

Tölfræði leiks

Hér fyrir neðan er hægt að sjá upptöku af leiknum, en aftast í henni eru æsispennandi lokamínúturnar.

Fréttir
- Auglýsing -