Hrannar Hólm varð um helgina danskur bikarmeistari en hann þjálfar kvennalið SISU og vann bikarinn annað árið í röð en Hrannar er einnig ríkjandi Danmerkurmeistari með liðið sem tók þátt í Evrópubikarkeppni kvenna, Eurocup, þetta tímabilið en liðið komst ekki upp úr riðlinum sínum.
Lokatölur leiksins voru 65-47 þegar SISU fagnaði bikarmeistaratitlinum gegn erkifjendum sínum úr Hörsholm. Hrannar sagði í samtali við Gentofte Lokalavisen að sigurinn hefði verið fyllilega verðskuldaður. Þá var Kiki Lund, fyrrum leikmaður Haukakvenna, í sigurliði SISU um helgina og sagði hún að liðið hafi stefnt að því að vinna bikarinn og að það hafi verið öðruvísi heldur en í fyrra þegar hópurinn var nokkuð breyttur frá því sem áður var. Kiki gerði 22 stig í leiknum og var valin besti maður bikarúrslitanna.