ÍA tók í kvöld á móti Sindra í 1. deildinni. Fyrir leik kvöldsins sat ÍA í 9. sæti með 12 stig (6/13) á meðan Sindri er í 3. sæti með 24 stig (12/7) í deildinni.
Í þeim 6 leikjum sem liðin höfðu spilað á þessu almanaksári hafði ÍA tapað 5 leikjum og unnið 1 á meðan Sindri hefur unnið 4 og tapað 2. ÍA kom þó inn í þennan leik með góðan útisigur á Þór á Akureyri, 67-97, á meðan Sindri kom í leikinn með sárt eins stigs tap gegn Skallagrími í Borgarnesi, 95-94.
Liðin voru að mætast í þriðja og síðasta sinn í deildinni þetta tímabilið. Sindri vann ÍA á Vesturgötunni á Akranes í opnunarleik tímabilsins 75-80 og unnu svo líka á Hornafirði 109-88.
ÍA hafði í vetur unnið 3 af 9 heimaleikjum sínum á meðan Sindri hefur unnið 5 af 10 útileikjum sínum. Tölfræðin var því með Sindra fyrir leikinn í kvöld.
Jafnræði var með liðunum í upphafi fyrsta leikhluta en í stöðunni 15-14 fyrir ÍA um miðjan leikhlutann má segja að leiðir hafi skilið. Þá tóku Sindramenn 7-0 kafla leiddu leikinn það sem eftir var.
ÍA gerði ágætlega í fyrri hálfleik með að koma boltanum inn í teig og náðu oftar en ekki að nýta sér að Sindri skipti á öllum skrínum. En Sindri hélt sínum stöðugleika allan leikinn á meðan ÍA átti áhlaup og söxuðu á forskotið en duttu svo niður. Staðan í hálfleik 37-43.
Sindri mætti tilbúinn í síðari hálfleik, juku forskot sig jafnt og þétt, breyttu aðeins varnarleik sínum og skotnýting þeirra bara batnaði á meðan skotnýting ÍA varð verri sem skilaði sér í því að sannfærandi sigur gestanna varð 72-93. Sindramenn halda því enn 3. sæti sínu í deildinni og þar með heimaleikjaréttinum þegar kemur að úrslitakeppninni þegar 9 umferðir eru eftir af deildarkeppninni. ÍA situr enn eftir í 9. stætinu og möguleikarnir á sæti í úrslitakeppninni verða minni og minni.
Það er erfitt að velja mann leiksins, það verður eiginlega að henda þeirri nafnbót á allt Sindraliðið, liðsheildin þeirra skók þennan sigur.
Punktar úr leiknum:
-Sindramenn mættu fáliðaðir, en góðliðaðir, til leiks en einungis voru 8 leikmenn á skýrslu. Þeir skoruðu allir.
-Skotnýting ÍA í leiknum var ekki góð, aðeins 39% utan af velli á meðan Sindri var með 63% skotnýtingu.
-Bæði lið töpuðu 17 boltum í leiknum.
-Alls spiluðu 3 leikmenn hjá ÍA 30 mínútur eða meira en bara 1 leikmaður hjá Sindra.
Umfjöllun HH