Sigurður Þorsteins, miðherji ÍR-inga, vildi ekki bjóða upp á neinar afsakanir í spjalli eftir leikinn:
Þið virtust aldrei eiga neinn séns í þennan leik. Munar svona mikið um Matta og Hákon, eru Keflvíkingar þetta mikið betri eða hvað sérð þú út úr þessu?
Það munar vissulega um Matta og Hákon en ég vil ekki nota það sem afsökun í dag – við erum hérna tólf á skýrslu tilbúnir að spila. Þeir voru vissulega mikið betri en við í dag en mér finnst þessi 20 stiga munur skýrast frekar af skelfilegum varnarleik hjá okkur frekar en að okkur vantaði leikstjórnanda. Þetta var bara hræðilegt hjá okkur.
Þið hefðuð einmitt kannski þurft mikið á því að halda í kvöld að spila hörkuvörn og gefa ykkur möguleika þannig – sóknarbitið fer svolítið úr liðinu þegar Matti og Hákon eru ekki með?
Ja…ef við hefðum bara farið í sóknina og gert það sem við hefðum átt að gera þá hefðum við kannski líka átt möguleika í leikinn en það var bara ein-tvær sendingar og svo bara skotið og það er ekki líklegt til afreka. Við vorum í raun bara hræðilegir á báðum endum.
Jájá, þið viljið ekkert nota meiðsli sem einhverja afsökun og teljið ykkur geta mun betur?
Já klárlega, ég vil alls ekki nota meiðslin sem afsökun. Við eigum að geta gert miklu betur án þeirra. Að tapa fyrir Keflavík er eitt en að tapa með 20, spila enga vörn og enga sókn….
…já og þið hefðuð auðveldlega getað tapað þessum leik með 40 stigum…
…já auðveldlega og þess vegna 50…þetta var bara hræðilegt.
Veistu hvað er langt í Matta og Hákon?
Það er bara dagaspursmál held ég.
Já, það eru jákvæðar fréttir – og tímabilið er nú bara rétt að byrja…
Jájá, það er óþarfi að vera eitthvað fúll, maður er auðvitað reiður núna eftir þennan leik en nóg eftir.