spot_img
HomeFréttirSigurður: Okkur langar virkilega í sigur gegn þeim

Sigurður: Okkur langar virkilega í sigur gegn þeim

13:55
{mosimage}

(Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Sigurður Ingimundarson landsliðsþjálfari)

Í dag kl. 17:15 mætast Danmörk og Ísland í fyrsta leik Íslands í síðari hluta B-deildar Evrópukeppninnar í karlaflokki. Danir eru eina þjóðin sem Ísland lagði að velli í fyrri hluta keppninnar og segir Sigurður Ingimundarson landsliðsþjálfari það glatað ef ekki næst sigur gegn Dönum!

,,Þetta eru alltaf svona nágrannaslagir hjá okkur gegn Dönum þar sem liðin þekkjast vel og hafa spilað oft við hvert annað. Það er glatað að vinna ekki Danmörku, ekki að þeir séu lélegir heldur langar okkur virkilega í sigur gegn þeim,“ sagði Sigurður Ingimundarson. Að þessu sinni er gert ráð fyrir því að Danir verði með nokkuð lágvaxnara lið gegn Íslandi en oft áður, hvernig leggst það í landsliðsþjálfarann?

,,Ég held að við eigum ekki eftir að lenda í neinum sérstökum vandræðum með þá inni í teig. Þeirra bestu skorar virðast ekki vera með og það hjálpar okkur aðeins en við erum með ákveðnar hugmyndir í vörninni gegn öllum liðum sem ætla að herja á okkur inni í teig. Ég hef trú á því að það eigi eftir að virka hjá okkur,“ sagði Sigurður en ætlar hann að keyra upp hraðann gegn Dönum?

,,Já klárlega, án þess þó að fara mikið í allan völl að pressa, við ætlum frekar að þröngva mönnum í léleg skot og missa boltann, fá þá til að taka ábyrgð sem þeir eru ekki vanir og síðan keyrum við á þá og sjáum hvað af því leiðir,“ sagði Sigurður sem lýsti því yfir á blaðamannafundi að yfirlíst markmið væri að vinna báða heimaleikina í keppninni.

,,Það eru Holland og Austurríki, það eru leikir sem við töpuðum úti, báðir leikir jafnir þegar fjórði leikhluti er að byrja en við síðan missum þá leiki úr höndunum og vorum ekkert sérlega sáttir við þær niðurstöður. Því viljum við vinna báða þessa leiki,“ sagði Sigurður sem teflir fram einum nýliða í Ómari Sævarssyni en landsliðsþjálfarinn hefur gert töluvert af því að tefla fram nýliðum og gefa þeim tækifæri á því að stíga sín fyrstu skref á stóra sviðinu.

,,Ég er sáttur við þetta og á síðustu 2-3 árum hafa margir nýliðar farið í gegn hjá okkur, margir hafa spilað fáa leiki hjá okkur og nokkrir að spila svotil sína fyrstu leiki og þessir sem hafa verið að koma nýjir inn líta bara vel út,“ sagði Sigurður í samtali við Karfan.is.

Danmörk-Ísland
Kl. 17:15 að íslenskum tíma í dag.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -