13:34
{mosimage}
(Landsliðsþjálfararnir Sigurður og Friðrk ræða málin í Laugardalshöllinni fyrir leikinn gegn Finnum í fyrri umferðinni)
Nú styttist óðum í að A-landslið karla hefji leik í síðari hluta riðlakeppninnar í Evrópukeppni B-þjóða en liðið mætir Finnum í Helsinki næstkomandi laugardag. Finnar eru efstir og ósigraðir í riðlinum og því um erfiðan leik að ræða hjá íslenska liðinu. Karfan.is náði á Sigurð Ingimundarson, landsliðsþjálfara, og ræddi við hann um framhaldið í keppninni og sagði Sigurður að íslenska liðið myndi leika hraðan bolta gegn Finnum ytra á laugardag.
Leikur gegn Finnum á laugardag sem eru ósigraðir í riðlinum. Er íslenska liðið í stakk búið að mæta jafn sterku liði?
Jú jú við erum að verða klárir í slaginn og það verður gaman að keppa við Finnana, sem eru með frábært lið og mæta vel undirbúnir í leikinn. Við töpuðum naumlega fyrir þeim heima í fínum leik, þannig að ég reikna með að þeir séu kannski sigurvissir gegn okkur og við getum nýtt okkur það.
Hvernig hefur undirbúningurinn í sumar fyrir riðlakeppnina gengið fyrir sig?
Undirbúningur okkar hefur verið minni en oft áður og ekki verið spilaður æfingarleikur síðan í Mónakó þannig að menn ættu að vera ferskir og hungraðir í að spila leiki.
Er enn einhver möguleiki á því að íslenska liðið komist upp úr riðlinum?
Við eigum ekki möguleika á að fara upp úr riðlinum en teljum alla leikina mjög mikilvæga fyrir okkur.
Hvað hafið þið verið að leggja upp með á síðustu æfingum fyrir Finna leikinn, hvernig bolta kemur íslenska liðið til með að spila?
Við munum gegn Finnum reyna að spila hraðan og skemmtilegan bolta þar sem áherslan verður á að samvinna okkar gæti fleytt okkur í gegnum leikinn.
Telur þú að sigurinn á Smáþjóðaleikunum hafi orðið til þess að landsliðinu hafi tekist að öðlast meira sjálfstraust í sínum leik?
Sigurinn þar var að sjálfsögðu mikilvægur fyrir liðið sem vann loks eftir að hafa verið alltaf nálægt því. En þetta var hjallur sem þurfti að komast yfir og það var mikilvægt.
Hverjar eru vonir ykkar Friðriks Inga fyrir íslenska liðið í Evrópukeppninni í ár?
Okkar ætlun fyrir þessa fjóra leiki er að spila hvern leik vel og bæta okkar leik og ná jafnvægi í leik okkar. Við erum með góðan hóp leikmanna og samkeppni er um hverja mínútu á vellinum. Þrátt fyrir að góðir leikmenn eins og Jón Arnór, sem er farinn til síns liðs á Ítalíu að berjast um stöðu þar. Einnig er Hlynur Bæringsson ekki með okkur að þessu sinni, þar sem hann og kona hans eiga von á barni á þeim tíma og leikirnir fara fram. Ungir og efnilegir leikmenn eru að koma fram og munu fá að spila í þessum leikjum og er það hið bestamál.