spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaSigurður Gunnar lagði ÍR í réttarsalnum

Sigurður Gunnar lagði ÍR í réttarsalnum

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi nú nýverið körfuknattleiksdeild ÍR til að greiða Sigurði Gunnari Þorsteinssyni, fyrrum miðherja liðsins, tæpar 2 milljónir króna með vöxtum auk um 800 þúsund króna í málskostnað, en Sigurður Gunnar hafði stefnt félaginu vegna vangoldinna launa í tengslum við riftun samnings Sigurðar við ÍR fyrr á árinu.

Sigurður samdi við ÍR haustið 2019 eftir stutta dvöl í Frakklandi, en sleit krossbönd eftir einungis um 10 mínútna leik í fyrsta leik sínum fyrir félagið gegn Þór Akureyri. Í kjölfarið upphófust deilur milli Sigurðar og ÍR sem lauk með því að ÍR rifti samningi Sigurðar við félagið, sem leiddi af sér fyrrgreint dómsmál. Dómur héraðsdóms taldi ljóst að körfuknattleiksdeild ÍR hefði skuldbundið sig til að greiða Sigurði tilteknar fjárhæðir á gildistíma samnings, allt þar til samningnum væri rift eða honum sagt upp með lögmætum hætti. Var það mat dómsins að meiðsli Sigurðar gætu ekki talist réttmæt ástæða uppsagnar af hálfu ÍR og dæmdi félagið því til greiðslu vangoldinna launa að kröfu Sigurðar.

Héraðsdómur er fyrsta dómsstig islenska réttarkerfisins og því eiga ÍR-ingar möguleika á að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms á næsta dómsstig, sem er Landsréttur.

Fréttir
- Auglýsing -