Eftir að Ísland lagði Lúxemborg í gær í undankeppni heimsmeistaramótsins 2023 vann Slóvakía lið Kósovó í hinum leik riðilsins, 91-67. Setur það stöðuna í riðlinum í fullkomið uppnám, þar sem að nú eru Slóvakía, Ísland og Kósovó öll með tvo sigra og eitt tap, á meðan að Lúxemborg hefur tapað öllum þremur leikjum sínum.
Á morgun mætir Ísland liði Kósovó og Slóvakía er þar á eftir á móti Lúxemborg. Sé litið til gengis liðanna hingað til er hægt að telja það ansi líklegt að Slóvakía klári sinn leik og því er gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland að gera slíkt hið sama.
Síðustu leikir riðilsins eru svo á dagskrá í febrúar, þar sem samkvæmt skipulagi Ísland tekur á móti Lúxemborg heima og mæta Slóvakíu úti í Bratislava.