spot_img
HomeFréttirSigur og tap í leikjum dagsins

Sigur og tap í leikjum dagsins

Dagur tvö hjá u-15 stelpunum hófst klukkan 10:15 með leik á móti Dönum í Sondervangshallen. Óhætt er að segja að íslensku stelpurnar hafi gleymt baráttunni og keppnisskapinu sem hefur einkennt þeirra leik á mótinu hingað til. Stelpurnar voru skrefinu á eftir allan leikinn en þrátt fyrir það varð munurinn aldrei mikill. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 22-16 Dönum í vil. 

 

Annar leikhluti spilaðist mjög svipað og sá fyrsti en Danir juku muninn um tvö stig, 33-25 í hálfleik. Þriðji leikhlutinn var hnífjafn en íslenska liðið var ennþá frekar andlaust. Staðan fyrir fjórða leikhluta var 49-41. Íslensku stelpurnar reyndu þó hvað þær gátu til þess að ná að jafna en allt kom fyrir ekki. Þær náðu nokkrum sinnum að koma muninum niður í 3 stig en herslumuninn vantaði til þess að setja meiri pressu á þær dönsku. Þær gerðu svo endanlega útum leikinn með steinakast þristi þegar skot klukkan var að renna út og innan við mínúta eftir. 

 

Leiknum lauk með 9 stiga sigri Dana, 65-56 en íslenska liðið fær tækifæri til þess að hefna fyrir þennan leik þegar þær mæta sama andstæðingi síðar í dag í krossspilsleik um 5-8 sætið. Engin ein stóð uppúr í íslenska liðinu í þessum leik. 

 

Stigaskorið dreifðist þannig að Kamilla var með 12 stig, Hrund 11stig, Birna 10 stig, Sigrún 6 stig, Elsa 4 stig, Kristín 3 stig og Halla, Eydís, Margrét, Viktoría og Birgit með 2 stig.

 

Síðari leikur dagsins hófst klukkan fjögur þegar þær íslensku fengu tækifæri til þess að hefna ófaranna frá því fyrr um morguninn. Núna mættu stelpurnar dýrvitlausar til leiks og ætluðu ekki að láta söguna endurtaka sig frá því um morguninn. 

 

Þær komust í 10-3 í upphafi leiks og litu ekki til baka eftir það. Fyrsti leikhluti endaði 17-12 íslensku stelpunum í vil. Í öðrum leikhluta héldu íslensku stelpurnar áfram að spila frábæra vörn og létu boltann ganga vel á milli sín í sókninni. Staðan í hálfleik var 34-28. 

 

Þær dönsku reyndu hvað þær gátu í þriðja leikhluta en íslenska liðið var mjög einbeitt og ætlaði sér ekki að hleypa þeim inn í leikinn. Staðan að loknum þremur leikhlutum var 47-41. Í þeim fjórða héldu íslensku stelpunum engin bönd. Þær kláruðu leikinn af krafti og allir leikmenn íslenska liðsins komust á blað í stigaskori. Það voru gríðarlega sáttar íslenskar stelpur sem gengu af vellinum eftir að hafa náð að hefna fyrir sárt tap í morgun. Leikurinn endaði 68-53 og allir leikmennirnir stóðu sig virkilega vel. 

 

Stigaskorið dreifðist þannig að Birna skoraði 13 stig, Kamilla 12 stig, Hrund 9 stig, Viktoría og Elsa 6 stig, Sigrún 5 stig, Margrét og Kristín 4 stig, Eydís 3 stig og Birgit, Halla og Sunna 2 stig.

 

Við tekur leikur um 5 sætið á morgun við fyrna sterkt lið Finna. Áfram Ísland

 

Texti: Ingvar Guðjónsson

Fréttir
- Auglýsing -