Evrópuboltinn er að fara á fullt og í gær byrjaði danska deildin, Canaldigitalligaen. Íslendingaliðin tvö Værløse og Åbyhøj öttu bæði kappi, þó ekki hvort við annað. Værløse fór til Álaborgar og sigraði heimamenn 73-70 en Åbyhjøj tók á móti Næstved og tapaði 57-87.
Axel Kárason átti góðan leik fyrir Værløse, var næststigahæstur með 14 stig en tók að auki 8 fráköst en stigahæstur var Mads Vægter með 26 stig.
Það byrjaði ekki eins vel hjá Arnari Guðjónssyni og lærisveinum hans í Åbyhøj. Þeir tóku á móti lærisveinum Geoff Kotila í Næstved og hægt og bítandi sigur suðursjálendingarnir framúr enda með feikilega sterkt lið þennan veturinn. Ólafur Sigurðsson og Guðni Valentínusson voru báðir í byrjunarliði Åbyhøj og lék Ólafur næstum allan leikinn og skoraði 5 stig, gaf 4 stoðsendingar og stal 3 boltum áður en hann fékk 5 villur. Guðni var með 13 stig og tók 5 fráköst en hann fékk einnig 5 villur.
Læstu leikir liðanna eru á miðvikudag, þá heimsækir Åbyhøj Hørsholm og Værløse tekur á móti Falcon.
Mynd: www.aaifbasket.dk