Í dag spiluðu landslið U15 kvenna sinn fyrsta leik í Copenhagen Invitational mótinu. Leikið var klukkan 12:45 á móti Svíum.
Óhætt er að segja að bæði lið hafi verið ansi stressuð og klikkuðu íslensku stelpurnar á fjölmörgum vítaskotum og opnum sniðskotum í fyrsta leikhluta. Staðan eftir fyrsta leikhluta var þó 7-6 fyrir Íslensku stelpunum. Strax í upphafi annars leikhluta skoruðu þær sænsku 6 stig í röð og íslenska liðið tók leikhlé í stöðunni 7-12.
Íslenska liðið tók hressilega við sér eftir leikhléið og skoruðu næstu 20 stig án þess að þær sænsku náðu að svara fyrir sig það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik því 27-12 fyrir Ísland. Í seinni hálfleik hélst þessi munur að mestu en rokkaði þó um 5-6 stig. Eftir þrjá leikhluta var staðan 38-25 og leikurinn endaði síðan 53-38 fyrir íslensku stelpunum.
Allir leikmenn íslenska liðsins spiluðu og komust mjög vel frá sínu. Stigaskorið dreifðist nokkuð vel á milli leikmanna en stigahæstur voru Kamilla Sól og Sigrún Elfa með 11 stig, Birna með 10 stig og Elsa með 9 stig. Viktoría Líf skoraði 5 stig, Hrund skoraði 4 stig og Eydís 3 stig
Texti: Ingvar Guðjónsson
Mynd: Sævaldur Bjarnason