Íslenska kvennalandsliðið vann Rúmeníu í dag í Ólafssal í öðrum heimaleik liðsins í öðrum landsliðsglugganum í undankeppni fyrir EuroBasket 2025. Íslenska liðið hefur því einn sigur í keppninni eftir fyrstu fjóra leikina alveg eins og Rúmenía.
Fyrir leik
Þessir tveir leikir hjá Íslandi voru í öðrum glugga undankeppninnar af þremur. Sá síðasti fór fram fyrir um ári síðan, en þá laut liðið í lægra haldi gegn Rúmeníu úti í Constantan í fyrsta leik áður en það tapaði svo aftur fyrir Tyrklandi í leik tvö heima í Ólafssal. Hvorugt var tapið þó neitt sérstaklega stórt og gera því skóna að með smá heppni væri Ísland að fara inn í þennan annan glugga með tvo sigurleiki, en ekki tvö töp.
Langt var á milli þessara tveggja fyrstu glugga undankeppninnar og óumflýjanlega voru því þónokkrar breytingar á liðinu. Ein af þeim stærri kannski sú að Birna Benónýsdóttir var ekki með núna vegna meiðsla. Þá vantaði einnig í hópinn Ísoldi Sævarsdóttur, sem er hætt og Jönu Falsdóttur, sem er fór í háskólaboltann í Bandaríkjunum nú í haust. Stærsta viðbótin í liðið í staðinn var óumdeilanlega Danielle Rodriguez, sem verið hefur með betri leikmönnum á Íslandi á síðustu árum, leikur fyrir Fribourg í Sviss á yfirstandandi tímabili, en fékk íslenskan ríkisborgararétt í desember á síðasta ári og því gjaldgeng með íslenska landsliðinu í þessum glugga.
Dani, eins og hún er jafnan kölluð, átti stórglæsilegan leik gegn Slovakíu (29 stig, 5 fráköst og 2 varin skot) þó að það hafi ekki dugað til sigurs. Slóvakía náði að vinna fyrsta leikinn hér heima fyrir 70-78 og því ennþá mikilvægara að vinna seinni leikinn gegn Rúmeníu.
Gangur leiksins
Leikurinn byrjaði á nokkrum jöfnum mínútum þar sem liðin voru ekki langt undan hvert öðru. Thelma Dís var funheit fyrir utan þriggja stiga línuna og setti þrjá þrista í röð fyrir Ísland til að taka forystuna 15-13. Þá kom ennþá meira sjálfsöryggi í íslenska liðið og við náðum aðeins að slíta okkur frá Rúmenum. Gestirnir náðu hins vegar smá áhlaupi undir lok fyrsta leikhlutans og gátu hrifsað aftur forystuna á síðustu mínútunni, 22-25.
Íslenska liðið kom inn með dúndrandi orku í annan leikhlutann og settu í lás gegn Rúmeníu. Þær íslensku spiluðu af hörku og áður en Rúmenar höfðu náð áttum hafði Ísland tekið 9-0 áhlaup á fyrstu fjórum mínútunum. Þrátt fyrir leikhlé Rúmena héldu Íslendingar áfram að skora og Rúmenar skoruðu ekki fyrr en hálfur fjórðungurinn var liðinn og staðan orðin 34-25.
Þegar Rúmenía gat loksins skorað þá fóru þær aðeins í gang en þá voru heimastúlkur komnar með 9 stiga forystu sem gestunum gekk illa að brúa. Kolbrún María átti frábæra leikflétta þar sem hún bókstaflega reif boltann af leikstjórnanda Rúmeníu, Alinu Podar, og dróg síðan óíþróttamannslega villu þegar hún ætlaði beinust leið á körfuna í hraðaupphlaupi en var brotið á henni aftan frá. Kolbrún setti bæði vítaskotin og skoraði síðan tveggja stiga körfu í sókninni eftir vítaskotin; fjögur stig í sömu sókn! Ísland leiddi mest með 12 stigum í leikhlutanum.
Á seinustu tveimur mínútum fyrri hálfleiksins misstu íslensku stúlkurnar aðeins einbeitinguna og þær rúmensku gengu á lagið. 12 stiga munur varð skyndilega 7 stig og þannig enduðu fyrstu 20 mínútur leiksins, 44-37 Íslandi í vil.
Íslenska landsliðið byrjaði seinni hálfleikinn ekki eins og þær hefðu kosið og gekk erfiðlega að hitta úr skotum sínum framan af. Rúmeníu gekk aðeins betur að hitta og þegar þær höfðu minnkað muninn í 3 stig eftir þrjár mínútur fannst Benna Gumm, þjálfara íslenska kvennalandsliðsins, nóg komið og hann tók leikhlé. Aftur komu þær íslensku sterkar inn og með elju og hörku juku þær muninn í 8 stig.
Það virtist alltaf koma svar hjá rúmenska liðinu þegar Íslandi gekk vel og óheppileg sóknarfráköst skiluðu sér í körfum sem drógu stundum aðeins þróttinn úr áhorfendum ef ekki íslensku leikmönnunum líka. Það gekk einstaklega illa að skora stig seinustu þrjár mínútur þriðja leikhluta og aðeins eitt vítaskot rataði rétta leið á þeim tíma. Rúmenía nálgaðist íslenska liðið en gat þó ekki muninn meira en í 4 stig fyrir lokaleikhlutann, 55-51.
Aukin harka færðist í leikinn í fjórða leikhlutanum og Rúmenar fengu dæmdar á sig nokkrar sóknarvillur í fjórðungnum. Þær náðu þó að halda sér inni í leiknum þökk sé góðum skotum sinna leikmanna, þá sérstaklega Katy Armanu sem setti 8 stig fyrir Rúmeníu á skömmum tíma. Á ögurstundu um miðbik leikhlutans í stöðunni 67-67 var dæmd sóknarvilla á Teodoru Manea og þjálfari Rúmeníu, Emilian Olteanu, fékk sína aðra tæknivillu fyrir mótmæli. Hann þurfti því að yfirgefa leikinn og aðstoðarþjálfarinn að taka við.
Ísland setti vítaskotið fyrir tæknivilluna og síðan setti Thelma Dís þrist í sókninni sem fylgdi og áhorfendur létu heyra vel í sér.
Rúmenar héldu þó haus og minnkuðu muninn hægt og rólega þar til staðan var jöfn, 73-73, með 26 sekúndur eftir af leiknum. Benni Gumm tók leikhlé og sagði Dani Rodriguez að taka boltann og láta eitthvað gerast. Hún olli ekki vonbrigðum og kláraði leikinn fyrir Ísland. Leiknum lauk með fjögurra stiga sigri Íslands, 77-73.
Tölfræði leiksins
Vendipunkturinn
Ísland vann leikinn í raun ekki fyrr en í lokasókn leiksins þegar Danielle Rodriguez setti þennan ævintýralega þrist.
Dani tók boltann upp völlinn, beið þangað til að aðeins 10 sekúndur voru eftir og þóttist þá ætla að nýta sér boltahindrun á vinstri hliðinni frá Isabellu Sigurðardóttur. Hún keyrði hins vegar á hægri hliðina á seinustu stundu, fann smá rými frá Alinu Podar, steig aftur fyrir þriggja stiga línuna og skaut þristi með Alinu aðeins of langt frá til að verja skotið.
Podar gat ekki varist því að brjóta á henni og boltinn fór í gegnum netið á sömu stundi og dómarinn dæmdi skotvilluna! Salurinn trylltist og Dani setti síðan vítaskotið niður sömuleiðis! Ísland leiddi 77-73 og skottilraun Rúmeníu dugði ekki til. Leik lokið.
Atkvæðamestar
Danielle Rodriguez var enn og aftur frábær fyrir Ísland, hún skoraði 25 stig, tók 8 fráköst og gaf 9 stoðsendingar ásamt því að stela tveimur boltum. Thelma Dís Ágústsdóttir var frábær sömuleiðis með 21 stig, 8 fráköst og 6 þrista niður (55% þriggja stiga nýting).
Hjá Rúmeníu var Alexandra Ghita með 18 stig, 10 fráköst og þrjá stolna bolta. Á eftir henni komu Alina Podar og Katy Armanu, báðar með 13 stig.
Tölfræðimolinn
Enn og aftur voru þær íslensku afleitar í fráköstum. Í fyrsta leikhlutanum tók Rúmenía 10 sóknarfráköst gegn aðeins 7 varnarfráköstum hjá Íslandi. Þetta lagaðist aðeins eftir því sem leið á leikinn en Rúmenía endaði með 11 fleiri fráköst í leiknum, þ.a. 10 fleiri sóknarfráköst.
Rúmenía tóku 70 skot utan af velli í leiknum en hitti aðeins úr 24 af þeim (34,3% skotnýting) á meðan að íslenska landsliðið tók aðeins 64 skot og hitti úr 25 þeirra (39,1%). Í naumum leikjum eins og þessum skiptir stundum eitt skot máli.
Kjarninn
Ísland gat á köflum breikkað bilið ennþá meira og hefði mögulega getað komist í 13 stiga forystu sem hefði dugað til að komast upp fyrir Rúmeníu (sem vann okkur með 12 stigum í Constantan). Rúmenar voru hins vegar mjög góðar á köflum í leiknum og nýttu sér tækifærin þegar íslenska liðið missti aðeins einbeitinguna.
Ísland hefur þá unnið sinn fyrsta leik í þessari undankeppni og sinn fyrsta leik í tvö ár. Sá leikur var einmitt líka gegn Rúmeníu!
Hvað svo?
Þessi landsliðsgluggi er þá búinn og við verðum að bíða fram til febrúar 2025 eftir þriðja og seinasta glugganum.
Þá spilar Ísland tvo útileiki; þann fyrsta 6. febrúar gegn Tyrklandi og næsta 9. febrúar gegn Slóvakíu. Báðir mjög erfiðir leikir en ef við náum t.d. Söru Rún til baka og fáum sama framlag frá þeim sem spiluðu í dag þá er miði möguleiki!