82-70 sigur á Eistum í síðasta leik riðils okkar í hádeginu var sætur. Efsta sæti riðilsins tryggt eftir riðlakeppni og undanúrslit gegn belgískum körfuboltaskóla í kvöld kl 17:45 (15:45 ísl. tíma).
Eistarnir höfðu farið nokkuð auðveldlega í gegnum andstæðinga sína fram að okkar leik. Sigruðu Rúmena með 38 stiga mun fyrsta kvöldið og svo Dani með 25 stigum þegar kom að okkar leik. Leikurinn hófst og jafnræði var með liðunum fyrst um sinn en Eistarnir þó með yfirhöndina. Þeir spiluðu fast á okkar menn ýttu mikið út úr stöðum og pressuðu okkur maður á mann. Í stöðunni 13-16 fyrir okkur skoruðu Eistar 16-2 run og höfðu örugga forystu eftir fyrsta leikhluta 28-20. Ekki höfðu okkar strákar náð að lesa liðið alveg nóg og létu teyma sig út úr stöðum.
2. leikhluti hófst af miklum krafti þar sem við svöruðum strax áhlaupi Eista með okkar 16-2 runni. En á þeim kafla settum við mikið af erfiðum skotum niður og vorum mjög duglegir að fara á vítalínuna, fengum 11 víti í leikhlutanum og skoruðum úr 10, góð einbeiting þar!
Staðan í hálfleik 40-35 fyrir okkur. Stigahæstir í hálfleik: Sigvaldi með 13 stig og Hilmar smári 9. Leikurinn vel spilaður af okkar hálfu þar sem vörnin var farin að þéttast.
Við héldum áfram að spila vel í 3ja leikhluta og héldum þeim nokkuð þægilega frá okkur 12-15 stigum. Staðan 64-53 eftir 3 leikhluta og áfram góð vörn lykill að þessari frammistöðu. Í stöðunni 53-49 stelur Sigvaldi boltanum á miðju, geysist fram og treður boltanum með tilþrifum og kveikti svo um munaði í íslenska hópnum sem ekki leit til baka eftir þetta og hélt áfram að vinna saman.
4. og síðasti leikhluti var svo nokkurnvegin eins og hinir 3 við héldum þeim nægjanlega langt frá okkur og lönduðum loks sætum og sanngjörnum 12 stiga sigri 80-72.
Flestir lögðu í púkkið sóknarlega eins og gengur og voru stigahæstu menn Sigvaldi með 24, Arnór 18, Hilmar Smári 16, Hafsteinn 9, Hilmar P 7, Brynjar og Elvar skoruðu 3 stig hvor, Smári og Ingvar 1 stig hvor. Því miður er ekki tölfræði tekin a mótinu en allir eru þeir að leggja i púkkið og spila fyrir liðið með hörkuvörn og baráttu sem skilar sér vonandi lengra.
Undanúrslit eru nú í kvöld gegn sterkum andstæðing og loks úrslitaleikir á morgun sunnudag kl 15 að dönskum tima. Hvort sem við spilum um gull eða brons.
Texti: Sævaldur Bjarnason