KR lagði Fjölni 64-56 í Domino´s deild kvenna í kvöld. Leikurinn var afar jafn og spennandi þó bæði lið hafi vafalaust átt betri daga. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir svaraði kallinu þegar allt var í járnum á lokaspretti leiksins og dró KR í átt að sigri. Enn einn leikurinn þar sem Fjölnir má naumlega sjá á eftir stigunum og eru Grafarvogskonur því enn við botninn með 4 stig en KR er með 14 stig í 3. sæti deildarinnar.
Fanney Lind Guðmundsdóttir var fljót að demba sér á tréverkið í fyrsta leikhluta þar sem hún fékk tvær villur í liði Fjölnis eftir eina og hálfa mínútu. KR varð þó fyrri til að ná smá forystu en Fjölnir jafnaði 10-10 eftir 4-0 áhlaup og Finnur Freyr kallaði sínar konur á bekkinn fyrir vikið og ræddi við þær í mínútu eða svo. Hugrún Valdimarsdóttir kom spræk inn af bekk Fjölnis og hafði fingur í öllum fráköstum á báðum endum vallarins en staðan 13-13 að loknum fyrsa leikhluta.
Britney Jones gerði sín fyrstu stig í leiknum fyrir Fjölni eftir 13 mínútna leik en KR hafði góðar gætur á henni í kvöld. Þó varnarleikurinn hafi verið fínn og baráttan góð í fyrri hálfleik verður ekki annað sagt en að sóknarleikur beggja liða hafi verið hrollkaldur. Staðan 17-17 þegar þrjár og hálf mínúta voru til hálfleiks en þá kom smá demba, Björg Guðrún kom KR í 23-19 með þrist en Fjölniskonur áttu lokasprettinn og mættu með 5-0 áhlaup og leiddu 23-24 í hálfleik.
Patechia Hartman var með 7 stig í liði KR í hálfleik og sömuleiðis var Bergdís Ragnarsdóttir með 7 stig í liði Fjölnis.
KR var sterkari aðilinn í þriðja leikhluta sem var ansi fjörugur miðað við leikinn fram að þessu. Heimakonur reyndu að keyra upp hraðann gegn hávöxnu liði Fjölnis sem þó fór oft illa með KR í teignum en þar spila Fjölniskonur vel saman og unnu t.d. frákastabaráttuna í kvöld 43-52. KR leiddi 46-41 eftir þriðja leikhluta þar sem Hafrún Hálfdánardóttir var m.a. með þungavigtarþrist undir lok leikhlutans.
Gestirnir úr Grafarvogi mættu ákveðnir inn í fjórða leikhluta og opnuðu hann með 6-0 dembu og komust í 46-47. KR náði loks að komast á blað eftir fjögurra mínútna leik í leikhlutanum og skiptust liðin þá á forystunni. Í stöðunni 50-49 hrökk Sigrún Ámundadóttir í gang í liði KR, Borgarnesþruman skellti þá niður þrist og kom KR í 53-49 og voru röndóttar við stýrið eftir það. KR hélt á 7-0 skrið en Fjölnir náði að minnka muninn í 59-54 en það var of lítið og of seint og lokatölur reyndust 64-56 KR í vil.
Myndir og umfjöllun/ [email protected]