spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Síðast var uppselt - Hvernig verður stemningin í Laugardalshöllinni á morgun?

Síðast var uppselt – Hvernig verður stemningin í Laugardalshöllinni á morgun?

Ísland tekur á móti Ítalíu í Laugardalshöllinni annað kvöld í fyrri leik annars glugga undankeppni EuroBasket 2025. Seinni leikur gluggans er svo einnig gegn Ítalíu, en sá leikur fer fram komandi mánudag 25. nóvember úti á Ítalíu.

Í keppninni er Ísland í fjögurra liða riðil með Ítalíu, Tyrklandi og Ungverjalandi, en í fyrsta glugga keppninnar tókst liðinu að sigra Ungverjaland og svo voru þeir hársbreidd frá því að leggja Tyrkland úti í Istanbúl. Aðeins eru leiknir sex leikir í undankeppninni og verða síðustu tveir, heima gegn Tyrklandi og úti gegn Ungverjalandi, leiknir í febrúar.

Hérna er heimasíða mótsins

Til þess að tryggja sig á lokamótið þarf Ísland að vera í sætum 1 til 3 í riðlinum, þar sem aðeins verður það liðið sem endar í 4. sætinu sem situr eftir. Með tilliti til úrslita Íslands í síðustu leikjum og hvernig liðið hefur verið að spila mætti því ætla að liðið hafi mögulega aldrei verið í betra tækifæri til þess að tryggja sig áfram.

Hérna er hægt að kaupa miða á heimaleikinn

Síðast er Ísland mætti Ítalíu á heimavelli var það árið 2022 í undankeppni heimsmeistaramótsins og fór leikurinn fram í Ólafssal í Hafnarfirði. Þá var það miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason sem átti stórleik fyrir Ísland og setti hann m.a. met í framlagi í keppninni með frammistöðu sinni er Ísland fór með sigur af hólmi. Þá, líkt og líklega á morgun, var uppselt og einstök stemning myndaðist höllinni. Stuðningsmenn Íslands eru því hvattir til að kaupa sér miða inni á smáforritinu Stubb áður en það verður um seinan og uppselt verður.

Fréttir
- Auglýsing -