spot_img
HomeFréttirSexfaldur íslandsmeistari með námskeið fyrir körfuboltaáhugamenn

Sexfaldur íslandsmeistari með námskeið fyrir körfuboltaáhugamenn

Brynjar Þór Björnsson landsliðamaður og margfaldur íslandsmeistari með KR er að fara af stað með körfuboltaþjálfun fyrir hinn almenna áhugamann. Aldrei hefur verið boðið upp á einstaklingsmiðaðar æfingar fyrir áhugamenn eða fyrrum leikmenn í neinni af stóru hópíþróttunum hér á landi.

 

Karfan.is náði tali af Brynjari á milli landsliðsæfinga á dögunum til að forvitnast frekar um þetta áhugaverða námskeið.

 

„Nú í sumar hélt ég mínar fyrstu skotbúðir. Þær heppnuðust mjög vel og mætti fjöldinn allur af krökkum þessar tvær vikur. Það var svo kollegi bróður míns sem kom að mér og spurði hvort ég gæti ekki haft álíka námskeið fyrir fullorðna. Þá fór ég að bera þetta undir fjölskyldu og vini, þeim fannst þetta eitthvað sem ég ætti klárlega að prófa og því sló ég til.“

 

Brynjar hefur orðið Íslandsmeistari 6 sinnum, spilað 46 landsleiki fyrir Íslands hönd og er leikjahæsti leikmaður KR frá upphafi. Hann segir að  markmið sé að gera körfubolta aðgengilegri fyrir hinn almenna áhugamann sem vill æfa undir leiðsögn.

 

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur mæti og taki á því og fái líkamlega útrás. Þetta á í raun að vera annar möguleiki fyrir fólk sem fer og hreyfir sig í hádeginu. Ég efa það að einhver muni mæta í Dominos deildina. Eina sem skiptir mig máli er að þátttakendur skemmti sér og finnist þeir bæta sig í körfubolta.“

 

„Hugmyndin að námskeiðinu er ný. Ég hafði aldrei leitt hugann að því að setja af stað námskeið fyrir hinn almenna áhugamann. Þó hef ég marg oft hugsað út í það þegar ferlinum lýkur hvort ég muni kveðja körfuboltaæfingar alfarið. Einn af stóru kostum körfuboltans er hvað það er auðvelt að taka einstaklingsæfingu, skemmta sjálfum sér í leiðinni og fá líkamlega útrás. Flestir fara í pikkup bolta, hann er skemmtilegur en takmarkaður að ákveðnu leyti. Skráningin hefur gengið vel og sýnist mér allaveganna vera fjöldinn allur af áhugamönnum um körfubolta á Íslandi.“

 

Á námskeiðinu er lögð áhersla á að æfingarnar verði krefjandi, að þátttakendur fái persónulega leiðsögn og fari heim þreyttir og kófsveittir. Það verður fyrst og fremst unnið með bolta en einnig verður farið í styrktar- og varnaræfingar. Haldið verður utan um skotnýtingu hvers og eins á hverri æfingu og þannig fylgst með bætingu frá degi til dags, frá upphafi til enda námskeiðsins.

 

Námskeiðin eru í fjórar vikur í hádeginu fyrir alla, konur og karla. Markmið æfinganna er að bjóða upp á annan möguleika fyrir fólk sem vill hreyfa sig en finnst einnig gaman í körfubolta. Körfuboltaæfingarnar eiga að vera hluti af hollri hreyfingu og á fólk að fá útrás fyrir sinni hreyfiþörf þegar það mætir til mín.

 

Námskeiðin fara fram á eftirfarandi tímum:

Námskeið 1: 13. september – 6. október
Námskeið 2: 11. október – 3. nóvember
Námskeið 3: 8. nóvember – 1. desember
Námskeið 4: 6.desember – 20. desember
-Æfingar fara fram á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 12-12:50

Verð 25.000 krónur.

 

Brynjar fer nú af stað með þetta námskeið en hyggur einnig á að endurtaka skotnámskeiðið sem sló svo rækilega í gegn í sumar auk þess sem hann mun halda fleiri námskeið fyrir unga jafnt sem aldna.

 

Allar upplýsingar um námskeiðið og skráningu má sjá hér.

 

 

Fréttir
- Auglýsing -