Eftir að framherjinn Serge Ibaka meiddist á kálfa í leik 6 gegn Los Angeles Clippers var ljóst að baráttan yrði erfið fyrir Oklahoma City Thunder í viðureign liðsins gegn San Antonio Spurs í úrslitum vestursins. Strax eftir leikinn var gefið út að varnartröllið frá Kongó kæmi ekki meira við sögu í úrslitakeppninni þetta árið. Hann hins vegar gaf það strax út að hann væri bara góður og til í að koma fljótlega til baka.
Nú hafa læknar liðsins gefið grænt ljós á endurkomu hans og snýr hann aftur til leiks og mun byrja strax í kvöld í leik 3 milli liðanna í Oklahoma.
Ef fjarveran hefur ekki haft áhrif á Ibaka mun endurkoma hans vera kærkomin fyrir Thunder liðið sem hefur verið vængbrotið í fyrstu tveimur leikjunum gegn Spurs. Texasbúarnir hafa vaðið um Thunder teiginn á skítugum skónum og skorað grimmt þar.