Callum Lawson hefur samkvæmt heimildum Körfunnar samið við Crailsheim Merlins í þýsku Pro A deildinni fyrir komandi tímabil og mun hann því ekki leika með Tindastóli eða öðru liði á Íslandi á komandi leiktíð í Bónus deild karla. Staðfesti leikmaðurinn í byrjun mánaðar að hann myndi yfirgefa Tindastól með færslu á samfélagsmiðlum, en ekki var víst hvert hann myndi fara fyrr en í dag.
Callum er 28 ára framherji sem fyrst kom til Íslands til að leika fyrir Keflavík árið 2020, en síðan þá hefur hann ásamt þeim leikið fyrir Þór, Val og nú síðast Tindastól. Árin 2021 og 2022 var hann mikilvægur leikmaður í Íslandsmeistaraliðum Þórs og síðan Vals. Fyrir síðustu leiktíð samdi hann við Tindastól, en með þeim fór hann í úrslitaleik bikarkeppninnar og átta liða úrslit úrslitakeppninnar.