spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaSemja við sex leikmenn og einn þjálfara

Semja við sex leikmenn og einn þjálfara

Keflavík samdi á dögunum við sex uppalda leikmenn sína, en félagið á bæði lið í Bónus og fyrstu deild kvenna. Leikmennirnir sex sem Keflavík samdi við eru Agnes María Svansdóttir, Anna Lára Vignisdóttir, Ásdís Elva Jónsdóttir, Bríet Sif Hinriksdóttir, Eva Kristín Karlsdóttir og Hanna Gróa Halldórsdóttir, en samningarnir eru allt frá einu ári til þriggja. Á sama tíma og félagið samdi við leikmennina samdi félagið við Elentínus Margeirsson um áframhaldandi störf sem aðstoðarþjálfari A liðs félagsins og þá mun hann stýra B liðinu í fyrstu deildinni.

Samkvæmt fréttatilkynningu félagsins:

Agnes skrifaði undir tveggja ára samning en hún kemut aftur til Keflavíkur eftir dvöl hjá North Florida Ospreys í bandaríska háskólaboltanum. Keflvíkingar þekkja Agnesi vel en þar er leikmaður sem mun styrkja liðið gríðarlega. Agnes á að baki fjölda leikja með yngri landsliðum Íslands og svo hefur hún einnig spilað með A landsliði kvenna. Við bjóðum Agnesi hjartanlega velkomna tilbaka.

Anna Lára framlengdi samning sinn til ársins 2027 en hún var valin efnilegasti leikmaður Keflavíkur á síðasta tímabili. Undanfarin ár hefur Anna Lára tekið gríðarlegum framförum og í dag er hún einn af lykilleikmönnum yngri landsliða Íslands og Keflavíkurliðsins. Það verður gaman að sjá Önnu Láru í vetur og við fögnum því að halda henni í okkar herbúðum næstu 3 árin.

Ásdís Elva er ein af okkar efnilegustu leikmönnum en hún kom inn í meistaraflokkinn á síðasta tímabili og spilaði sinn fyrsta leik. Þar er á ferðinni leikmaður sem lætur fátt stoppa sig. Hún á að baki leiki fyrir U15 og U16 ára landslið Íslands og mun á efa láta að sér kveða í vetur. Ásdís skrifaði undir sinn fyrsta samning en hann er til tveggja ára.

Bríet Sif er komin aftur á parketið í Blue Höllinni eftir nokkur ár í öðrum liðum og svo barneignarfrí. Bríet hefur komið gríðarlega sterk inn í hóp Keflavíkur og mun án efa styrkja liðið okkar mikið. Bríet er með betri skyttum landsins en hún spilaði í öllum landsliðum Íslands og á einnig leiki með A landsliðinu. Við fögnum því að sjá Bríet spila í búning Keflavíkur á ný og bjóðum hana innilega velkomna.

Eva Kristín hefur komið afar sterk inn í meistarflokks æfingahópinn í sumar. Hún er stór og sterk og lætur finna vel fyrir sér gegn eldri leikmönnum liðsins. Hún á leiki að baki með bæði U15 og U16 ára landsliðum Íslands. Framtíðin er björt hjá þessum leikmanni og það verður gaman að sjá hana þróast áfram. Þetta er fyrsti samningur Evu en hann er til tveggja ára og við bindum miklar vonir við hana sem leikmann.

Hanna Gróa er að skrifa undir sinn fyrsta samnning við Keflavík en hann er til tveggja ára. Hanna er gríðarlega efnileg en hún sýndi það á síðasta tímabili þegar hún fékk sín fyrstu tækifæri með meistaraflokk Keflavíkur að þar fer leikmaður sem á eftir að ná langt. Hanna á fjöldan allan af leikjum yngri landsliða Íslands en hún hefur spilað leiki í U15, U16 og nú síðast í sumar lék hún á Norðurlandamótinu í Svíþjóð og svo í Rúmeníu í Evrópukeppni með U18 ára liðinu en þar var hún ein af þeim leikmönnum sem var á yngra árinu og er því enn gjaldgeng í því liði næsta sumar.

Fréttir
- Auglýsing -