Þór Akureyri hefur samið við Hönnu Gróu Halldórsdóttur um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í Bónus deild kvenna.
Hanna er 17 ára, 172 cm bakvörður sem kemur til Þórs frá uppeldisfélagi sínu í Keflavík, en þar hefur hún verið með meistaraflokki frá síðasta tímabili, 2023-24. Þá hefur Hanna verið hluti af öllum yngri landsliðum á síðustu árum, nú síðast með undir 18 ára liði Íslands sem fór á Norðuyrlanda- og Evrópumót sumarið 2024.
Tilkynning:
Körfuknattleikskonan unga, Hanna Gróa Halldórsdóttir hefur gengið til liðs við Þór og mun leika með liðinu út keppnistímabilið hið minnsta.
Hanna Gróa, sem fædd er árið 2007, er 172 cm og kemur frá uppeldisfélagi sínu Keflavík. Hún hefur leikið með unglingalandsliðum Íslands og var meðal annars valin í U18 ára landslið stúlkna sem tók þátt í Evrópumóti í Ploiesti í Rúmeníu í ágúst 2024. Hún hefur verið að fá fimm til 20 mínútur í leikjum Keflavíkur í vetur en vonast eflaust eftir stærra hlutverki í Þórsliðinu.
Eins og allir Þórsarar vita er kvennalið okkar í körfubolta meðal allra fremstu liða landsins og situr sem stendur í öðru sæti úrvalsdeildarinnar og er komið í undanúrslit bikarkeppninnar. Óhætt er að segja að koma Hönnu Gróu styrki breidd liðsins mikið en nú hafa alls þrír leikmenn bæst við hópinn í janúar. Áður hafði Adda Sigríður Ásmundsdóttir komið frá Snæfell og mikið gleðiefni er að Hrefna Ottósdóttir hefur ákveðið að taka fram skóna á nýjan leik og leika með liðinu út veturinn.
Stelpurnar okkar eru í toppbaráttu og bætast þessar stelpur við hópinn á mikilvægum tímapunkti. Félagið hefur lagt áherslu á að efla lið sitt fyrir seinni hluta tímabilsins, og þessi viðbót gæti reynst dýrmæt í framhaldinu. Þess ber að geta að Hanna Gróa er eins og áður sagði fædd árið 2007 og Adda er fædd árið 2008, koma þeirra er liður í því að byggja lið okkar Þórsara upp til framtíðar og sína að Þór er svo sannarlega vettvangur þar sem ungar körfuboltastelpur geta látið ljós sitt skína!
Hanna Gróa hefur þegar fengið félagaskipti í Þór og mun leika sinn fyrsta leik fyrir félagið strax eftir landsleikjahlé og verður spennandi að fylgjast með framlagi hennar í nýju umhverfi.