Það er orðið ljóst að Semaj Inge mun snúa aftur til Hauka og spila með Hafnarfjarðarliðinu á næstu leiktíð. Semaj fékk tilboð frá Haukum áður en hann fór af landi brott síðasta vor en hann var partur af liðinu sem vann sér rétt til að leika í efstu deild á komandi leiktíð. Semaj skrifaði undir nú um helgina og fékkst það staðfest frá formanni meistaraflokksráðs hjá Haukum.
Þetta kemur fram á heimasíðu Hauka
Semaj kom upphaflega til liðs við KR á síðustu leiktíð en skipti yfir til Hauka um miðja leiktíðina og kláraði tímabilið með þeim í 1. deild. Með KR skoraði hann 18,7 stig, tók 5,4 fráköst og gaf 5,2 stoðsendingar og hjá Haukum var hann með 27,1 stig, 9,7 fráköst og 5,5 stoðsendingar í leik.
Það er ljóst að þetta er mikið hvalreki fyrir lið Hauka sem þegar hefur samið við Gerald Robinson.