Leikið var í Forsetahöllinni er heimamenn á Álftanesi tóku á móti Selfyssingum í fyrstu deild karla. Þetta var hörkuleikur og barist alveg að lokaflautinu. Álftnesingar voru búnir að tapa tveimur leikjum í röð fyrir leikinn og því var búist við að þeir myndu mæta einbeittir til leiks. Fyrir leikinn voru Álftnesingar í þriðja sæti deildarinnar en gestirnir í því sjötta. Liðin áttust við fyrr í haust þar sem Álftnesingar báru sigur úr býtum.
Gangur leiks
Bæði lið mættu sterk til leiks og greinilegt að heimamenn ætluðu sér að koma sér aftur á beinu brautina. Liðin spiluðu skilvirkan sóknarleik og skiluðu fínasta verki varnarlega. Eysteinn Bjarni og Cedrick Taylor Bowen drógu vagninn fyrir Álftnesinga og skoruðu megnið af stigum þeirra. Leikmaður Selfyssinga Trevon Lawayne Evans spilaði frábærlega og stýrði spilinu ásamt því að komast í auðveld sniðskot. Aftur á móti leiddu heimamenn, 21-20 eftir fyrsta leikhluta.
Í byrjun leikhlutans sigldu Álftnesingar fram úr gestunum og gerðu þeim erfitt fyrir með prýðilegum varnarleik. Selfyssingar breyttu varnarskipulaginu og fóru í svæðisvörn. Þeir spiluðu hana frábærlega, breyttu vörn í sókn og skoruðu sjö stig í röð. Hrafn Kristjánsson þjálfari gestanna leist illa á þetta og tók leikhlé. Hann útskýrði fyrir sínum mönnum hvernig ætti að brjóta niður vörn Selfyssinga. Við það batnaði sóknarleikur heimamanna mikið. Dino Stipcic leikstjórnandi þeirra dreifði boltanum vel og endaði leikhlutann með sjö stoðsendingar. Staðan í lok leikhluta, 47-42 fyrir heimamönnum.
Þegar liðin mættu aftur til leiks, byrjuðu heimamenn leikhlutann betur. Chris Caird tók leikhlé er Álftnesingar virtust vera sigla fram úr. Leikhléið kveikti heldur betur í hans mönnum en þeir söxuðu á forystu heimamanna. Gerald Robinson leikmaður Selfyssinga átti erfitt uppdráttar en vaknaði til lífsins í þriðja leikhluta. Hins vegar spilaði Eysteinn Bjarni ótrúlega vörn og komst sömuleiðis auðveldlega upp að hringnum. Eftirtektavert var að Álftnesingar tóku ansimörg sóknarfráköst en náðu ekki fylgja því eftir með körfum. Staða í lok leikhluta, 75-64 heimamönnum í vil.
Þegar komið var í seinasta fjórðunginn var útlit fyrir að gestirnir væru að missa leikinn úr sínum höndum, en þeir börðust með kjafti og klóm. Álftnesingar byrjuðu samt leikhlutann með reynsluminni leikmenn inn á. Hins vegar byrjuðu Selfyssingar með reynslumikið lið inn á og minnkuðu muninn niður í þrjú stig. Hrafn tók því leikhlé og skipti byrjunarliðiðinu inn en Selfyssingar komust yfir með Trevon Evans fremstan í broddi fylkingar. Hann gerði út um leikinn algjörlega upp á sitt einsdæmi. Gestirnir fóru með sigur af hólmi í spennuþrungum leik, 87-94.
Atkvæðamestir
Eysteinn Bjarni var besti leikmaður heimamanna. Hann skoraði 20 stig, tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Trevon Lawayne Evans var langbesti leikmaður vallarins og skilaði ótrúlegum tölum. Hann skoraði 43 stig og gaf 6 stoðsendingar.
Hvað svo?
Næsti leikur Álftnesinga er gegn Skallagrími á heimavelli þeirra. Þar er búist góðum leik vegan þess að Álftnesingar þurfa að komast aftur á beinu brautina eftir erfiða taphrinu. Selfyssingar mæta Hetti á erfiðum útivelli á Egilsstöðum. Austfirðingar eru í fyrsta sæti deildarinnar og eru að reyna komast upp í deild þeirra bestu. Um er að ræða mjög spennandi leik.
Umfjöllun / Gunnar Bjartur Huginsson